145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

fundur ráðherra með stjórnarandstöðunni um framgang mála.

[14:55]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Þegar ég bauð hv. þingmenn velkomna á fundinn í morgun fór ég yfir það að hæstv. fjármálaráðherra væri erlendis á ráðstefnu, löngu til boðaðrar, að flytja erindi um efnahagsmál á Íslandi og árangur okkar á þessu svæði á síðustu árum, sem er auðvitað stórkostlegur og þess vegna var eftirspurn eftir því að fá hæstv. fjármálaráðherra til þess að mæta á slíkan fund. Okkur fannst það mjög mikilvægt, eftir það sem á undan var gengið, að koma þeim skilaboðum til umheimsins hver staðan er á Íslandi.

Spurt var af hverju ekki var boðað til fundarins í gær. Við fjármálaráðherra áttum fund í gær, síðan var ríkisstjórnarfundur. Það var þingflokkadagafundur þar sem ég var þá þegar búinn að fá tækifæri til að óska eftir fundum með forustu stjórnarandstöðunnar. Ég ætlaði að hafa tækifæri til þess að eiga fund með hverjum og einum. Ósk kom frá stjórnarandstöðunni um að koma öll saman, það fannst mér líka fín leið. Við áttum ágætisfund í morgun sem mér fannst skipta miklu, vera gott skref inn í það sem við þurfum að gera í stjórnmálum á Íslandi til þess að auka traust almennings á stjórnmálum og stjórnmálamönnum. Mér fannst fundurinn í morgun ganga mjög vel hvað það varðaði.

Það er hins vegar alveg rétt að ég gat ekki á þeim fundi — ég vildi halda hann þrátt fyrir að fjármálaráðherra væri erlendis. Við munum án efa halda fundi í framhaldinu þar sem fjármálaráðherra verður einnig viðstaddur, þar sem við förum yfir þau mál sem hafa verið til umræðu hér í dag, eins og til að mynda þau þingmál sem liggja fyrir þinginu og þau viðbótarþingmál sem við höfum talað um að þurfi að fara fyrir þingið til að við getum lokið mikilvægum verkefnum sem snúa að almannahag og þjóðarhag.