145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

fundur ráðherra með stjórnarandstöðunni um framgang mála.

[14:59]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Varðandi fjölda mála þá hef ég nú verið á þeirri skoðun mjög lengi, og reyndar löngu áður en ég settist á þing, að það væri ekki mælikvarði á gæði þingstarfa að troða sem flestum þingmálum í gegn. Eftir að ég upplifði mín fyrstu ár hér inni varð ég sannfærður um að mikilvægara sé að vanda sig.

Þau verkefni sem ég hef setið uppi með sem ráðherra, þ.e. að þurfa að verja alls kyns lög sem hafa verið sett á liðnum árum sem ekki hafa staðist, hafa sannfært mig um að skynsamlegra sé að leggjast yfir færri mál og gera það af vandvirkni.

Það er ekki ágreiningur um mál á milli stjórnarflokkanna, það er ekki ástæðan fyrir því að við höfum ekki sest niður með minni hlutanum á þingi og farið yfir þann málafjölda sem við viljum klára. Við stigum fyrsta skrefið í morgun. Við munum halda áfram á þeirri braut og mér finnst mjög mikilvægt að geta haldið því samtali áfram á þeim nótum sem við náðum í morgun og lýsi mig fullbúinn til þess.