145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

lágskattalönd og upplýsingar um skattamál.

[15:07]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég tel að þeir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar sem hv. þingmaður vísaði til hafi gert nokkuð skýra grein fyrir sínum málum. Mér finnst aðalverkefnið hér og nú að skoða heildarmyndina og að við viðurkennum hreinlega fyrir sjálfum okkur að það að í einu félagi í gegnum einn banka í gagnaleka úr einni lögmannsstofu í Suður-Ameríku skuli leynast gögn um allt að 800 fyrirtæki á Íslandi, það sé verkefnið sem við þurfum að velta fyrir okkur, það þurfi að rannsaka. Þeim aðilum sem þar hafa ekki gert hreint fyrir sínum dyrum, ekki borgað skatta til samfélagsins, ekki upplýst um sín mál, sé gert að gera það með einum eða öðrum hætti og þeim stofnunum samfélagsins sem við höfum til að rannsaka það séu tryggð tæki til þess. Fyrsta skrefið er að upplýsa um hvernig staðan er í dag og það er það sem stendur til. Frumkvæðið hefur þar af leiðandi þegar verið sett af stað.