145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[15:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar. Með frumvarpinu er lagt til að tekið verði upp nýtt greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu og að ákveðnar verði mánaðarlegar hámarksgreiðslur sjúkratryggðra.

Í frumvarpinu er jafnframt ákvæði varðandi þjónustustýringu innan heilbrigðisþjónustunnar sem miðar að því að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga.

Helstu breytingarnar í frumvarpinu eru þær að hámark er sett á greiðslur einstaklinga fyrir heilbrigðisþjónustu, mismunandi greiðslukerfi fyrir þjónustu heilsugæslu, sjúkrahúsa, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna, rannsóknir, geisla- og myndgreiningar — allt er þetta sett í eitt kerfi með einu hámarki. Áður voru hátt í 40 greiðslukerfi með mismunandi afsláttarfyrirkomulagi í gildi; og er raunar í dag áður en frumvarpið verður afgreitt. Jafnframt eru aldraðir, öryrkjar og börn látin greiða tvo þriðju af kostnaði almennra sjúklinga, sem eru á aldrinum 18 til 66 ára. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að börn geti fengið ókeypis þjónustu með tilvísun frá heimilislækni. Innheimta gjalda tekur mið af greiðslusögu í gegnum afsláttarstofn og innheimta gjalda fyrir sérfræðiþjónustu er einfölduð.

Í núverandi greiðsluþátttökukerfi er fyrirkomulagið með þeim hætti að þar getur mjög mikill kostnaður fallið á notendur heilbrigðisþjónustu svo að þungbært getur orðið fyrir hinn sjúkratryggða. Einnig getur mikill kostnaður hindrað að fólk leiti sér nauðsynlegrar þjónustu. Nýju greiðsluþátttökukerfi er fyrst og fremst ætlað að dreifa greiðslum fyrir þjónustu með öðrum hætti en í eldra kerfi þannig að þak verði sett á kostnað þeirra sem þurfa á mikilli þjónustu að halda svo að kostnaður verði þeim viðráðanlegur. Þar sem fjárútlát ríkissjóðs eiga ekki að aukast með nýja kerfinu þarf að hækka greiðslur á aðra á móti þeim lækkunum sem þarna eru reiknaðar inn.

Frumvarp þetta byggir á tillögum nefndar sem leidd var af Pétri heitnum Blöndal, félaga okkar hér. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar frá öllum þingflokkum auk sérfræðinga frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Sjúkratryggingum Íslands, lyfjagreiðslunefnd og velferðarráðuneytinu. Nefndin var þannig skipuð að Pétur H. Blöndal alþingismaður var skipaður formaður án tilnefningar. Með honum voru í nefndinni Ingibjörg Þorsteinsdóttir, sviðsstjóri frá Sjúkratryggingum Íslands, Katrín Júlíusdóttur, tilnefnd af þingflokki Samfylkingarinnar, Kristinn Snævar Jónsson, tilnefndur af þingflokki Framsóknarflokksins, Margrét Björk Svavarsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu, Álfheiður Ingadóttir, tilnefnd af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingmaður, tilnefnd af þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Rúna Hauksdóttir Hvannberg, formaður lyfjagreiðslunefndar, Sigrún Gunnarsdóttir, dósent við Háskólann, tilnefnd af þingflokki Bjartrar framtíðar, Sigurður Jónas Eggertsson, tilnefndur af þingflokki Pírata, og Viðar Helgason sérfræðingur, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Með hópnum unnu starfsmenn velferðarráðuneytisins og sjúkratrygginga. Ég vil við þetta tækifæri þakka öllum þeim einstaklingum sem hér hafa verið nefndir og enn fremur starfsfólki ráðuneytisins fyrir mikla og góða vinnu.

Nefndin skilaði skýrslu um nýtt greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu í mars 2015. Í ágúst það sama ár var síðan settur á laggirnar vinnuhópur sem í áttu sæti sérfræðingar velferðarráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Sjúkratrygginga Íslands. Vinnuhópnum var falið að setja á fót nýtt greiðsluþátttökukerfi í samræmi við tillögur nefndarinnar. Þetta frumvarp er samið af þeim sama vinnuhóp.

Ástæðan fyrir þessu er í grunninn sú að núverandi kerfi sem við höfum um greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðisþjónustunni tryggir fólk ekki á viðunandi hátt. Þetta er óréttlátt kerfi. Það er mjög flókið og óskiljanlegt. Það veldur tortryggni. Við getum nefnt sem dæmi, eins og iðulega kom fram í nefndarvinnunni, að við erum með hátt í 40 greiðslukerfi með mismunandi afsláttarformi í núverandi fyrirkomulagi. Þess vegna er þessi vinna öll unnin, að koma á einu greiðsluþátttökukerfi sem tryggir alla á sama hátt. Við erum að sameinast um það, og þverpólitísk samstaða er um það, að nauðsynlegt sé að breyta kerfinu á þann veg að líta á heilbrigðiskerfið frá sjónarhóli einstaklingsins og tryggja hann fyrir áföllum, og þá sérstaklega þá sem lengi og varanlega þurfa á þjónustu að halda. Um þetta hefur verið mjög mikil samstaða eins og ég gat um hér áðan, þverpólitísk, en svo eru að sjálfsögðu önnur atriði sem við getum tekist á um; hversu mikla fjármuni eigi að taka inn í kerfið og hvaða greiðsluþætti eigi frekar að koma inn með o.s.frv. En grundvallaratriðið er að gera þá bráðnauðsynlegu breytingu að einfalda kerfið og tryggja að fólk sé tryggt gagnvart þessum kostnaði með sambærilegum hætti, sem það er ekki í dag. Í því kerfi sem nú er við lýði greiða einstaklingar gríðarlega háar fjárhæðir, það kom fram í nefndarvinnunni.

Með frumvarpinu er meginstefið það að enginn eigi að þurfa að greiða meira en sem nemur ákveðinni hámarksfjárhæð fyrir heilbrigðisþjónustu í hverjum mánuði. Markmiðið er að hlífa þeim sem þurfa á mikilli heilbrigðisþjónustu að halda fyrir háum kostnaði og jafna greiðslubyrði sjúkratryggðra. Gert er ráð fyrir því að hámarksgreiðslur hjá öldruðum, öryrkjum og börnum verði lægri en hjá almennum sjúkratryggðum. Og í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að inn í kerfið falli greiðslur sjúkratryggðra vegna þjónustu heilsugæslu, sjúkrahúsa, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna, sem samið hefur verið við í samræmi við ákvæði laga um sjúkratryggingar, en enn fremur rannsóknir og geisla- og myndgreiningar; að allir þessir þættir falli undir hið nýja greiðsluþátttökukerfi.

Það greiðsluþátttökukerfi sem tekið verður upp og er lagt til samkvæmt frumvarpinu byggist á fyrirmynd sem sett var fram af dr. Pétri H. Blöndal og hefur það verið kallað PHB-kerfið. Kerfið er stillt af með svokölluðu hámarksgjaldi sem ákveðið verður af ráðherra með reglugerð. Gert er ráð fyrir því við gildistöku laganna að forsendur ráðherra við ákvörðun hámarksgjalds verði að sjúkratryggðir einstaklingar greiði ekki hærra hlutfall af heildarkostnaði við heilbrigðisþjónustu en í núverandi fyrirkomulagi. Því er ekki gert ráð fyrir því að hlutdeild sjúkratryggðra í heildarkostnaði við heilbrigðisþjónustu muni hækka við innleiðingu á nýju greiðsluþátttökukerfi, en grunnforsendan er sú að kostnaði verði dreift með öðrum hætti þannig að þeir sem þurfa sjaldnar á heilbrigðisþjónustu að halda greiði meira en þeir sem þurfa á mikilli heilbrigðisþjónustu að halda.

Samkvæmt frumvarpinu mun kerfið virka þannig að greiðslur sjúkratryggðs mynda svokallaðan afsláttarstofn og munu greiðslur sjúkratryggðs fyrir heilbrigðisþjónustu miðast við stöðu afsláttarstofnsins hjá viðkomandi einstaklingi. Kostnaður umfram hámarksgreiðslu greiðist hins vegar af sjúkratryggingum. Afsláttarstofninn getur ekki numið hærri fjárhæð en hámarksgreiðslur sjúkratryggðs í hverjum mánuði. Kerfið núllstillist ekki um áramót heldur ákvarðast stofninn miðað við greiðslu sjúkratryggðs síðustu mánuðina á undan.

Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu má finna töflu með dæmum sem sýna hvernig greiðslur sjúkratryggðra geta orðið verði frumvarpið að lögum.

Með þessum breytingum á lögum um sjúkratryggingar er stefnt að því að koma á fót réttlátu og rökréttu greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustunnar sem miðar að því að verja sjúkratryggða fyrir mjög háum kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Með frumvarpinu er einnig lagt til að lögfest verði ákvæði sem miða að því að tekin verði upp þjónustustýring innan heilbrigðisþjónustunnar til að styðja við þá stefnu sem mörkuð er í lögum um heilbrigðisþjónustu frá árinu 2007, að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Ákvæðin miða jafnframt að því að styðja við nýtt fyrirkomulag við fjármögnun innan heilsugæslunnar sem byggist að miklu leyti á því að sjúkratryggðir séu skráðir á tiltekna heilsugæslustöð. Lagt er til að heimilt verði að ákveða að sjúkratryggðir sem sækja þjónustu á aðra heilsugæslustöð en þeir eru skráðir á þurfi að greiða hærra gjald fyrir þjónustuna. Þetta er heimildarákvæði samkvæmt frumvarpinu.

Þá er jafnframt lagt til að heimilt verði að ákveða að gjald fyrir þjónustu hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum verði hærra hjá þeim sem sækja sér þjónustuna án tilvísunar frá heilsugæslu eða heimilislækni. Einnig er lagt til að heimilt verði að ákveða að gjald fyrir heilbrigðisþjónustu fyrir börn verði lægra eða falli niður ef þjónustan er sótt með tilvísun heilsugæslu eða heimilislæknis.

Með þeim breytingum sem hér eru kynntar er stefnt að því að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaður sjúklinga og jafnframt að sporna við því að greiðslur vegna heilbrigðisþjónustu hækki og þá sérstaklega hjá barnafjölskyldum.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og leyfi mér því að leggja til að því verði vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr. að lokinni þeirri umræðu sem hér á sér stað.