145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[15:25]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil vara hæstv. ráðherra við því að gleðjast of mikið yfir pólitískri samstöðu um málið því að tæplega 90 þús. manns hafa skrifað undir ákall um aukið fé í heilbrigðiskerfið. Þetta frumvarp mætir því með engu móti en eykur aftur á móti heilbrigðiskostnað yfir 100 þús. Íslendinga. Það mun standa mjög í stjórnarandstöðunni.

Hér er önnur spurning sem varðar síðustu málsgrein 1. gr., með leyfi forseta:

„Kostnaður umfram hámarksgreiðslu sjúkratryggðs greiðist af sjúkratryggingastofnuninni ef um er að ræða þjónustu sem stofnunin tekur þátt í að greiða, annars af viðkomandi heilbrigðisstofnun.“

Þá velti ég því fyrir mér, ef einhvers konar tilfærsla verður þarna á milli, hvort þær heilbrigðisstofnanir, t.d. á landsbyggðinni, fái fjárveitingar til að mæta þessu. Eða þurfa þær að bera þetta af þeim fjárveitingum sem þær hafa nú þegar?