145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[15:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt skilið hjá hv. þingmanni að þetta frumvarp er einmitt unnið á þeim nótum. Við erum að létta byrðum af þeim sem höllum fæti standa í íslenskri heilbrigðisþjónustu í dag, þ.e. sjúklingum sem bera hvað mestan kostnað, jafna þeim yfir á okkur hin sem njótum þeirrar gæfu að þurfa tiltölulega sjaldan að leita til heilbrigðisþjónustunnar. Þetta er fyrsta skref.

Það er ekkert nýtt að gerð sé atlaga í því að breyta þessu kerfi ójöfnuðar, sem byggst hefur upp í heilbrigðisþjónustunni á mörgum undanförnum árum, með þessi margvíslegu greiðslukerfi, hátt í 40. Þeir sem þekkja til og skoða þetta viðurkenna einfaldlega að kerfið eins og það er úr garði gert í dag, og hefur vaxið í þennan óskapnað, tryggir íslenska sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni ekki nægileg vel gagnvart kostnaði.

Þá var fyrsta skrefið að taka í þá átt að breyta þessu, að búa til eitt greiðslukerfi með sem einföldustum hætti, skilja að lyfjagreiðslukerfið og þann kostnað í heilbrigðisþjónustunni sem þarna liggur fyrir og verja barnafólk sérstaklega. Það eru leiðir í þessu kerfi sem vissulega geta létt kostnaði af barnafjölskyldum, en það þýðir það að við hin þurfum þá að taka á okkur aukinn kostnað.

Það er bara þannig eins og þetta mál hefur verið unnið og hvergi dregin dul á það.