145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[15:39]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar það er beinlínis markmið einhverrar vinnu að flytja kostnað frá einum hópi yfir á annan, eins og verið er að gera hér, þá tel ég mjög mikilvægt að nefndin hugi að því til hvers konar mótvægisaðgerða hægt væri að grípa eða þá hvers konar vöktunarfyrirkomulag væri hægt að hafa vegna þess að við viljum ekki að hópur tekjulágra sem við vitum vel að er stór hér á landi, allt of stór, veigri sér við að sækja sér þessa þjónustu út af auknum kostnaði. Þetta á við um almennu þjónustuna og þá sem sækja sér hana kannski ekki endilega oft, en þau fáu skipti sem þeir fara skipta máli í því að koma í veg fyrir að sjúkdómur ágerist og verði stærri og verri. Ég hvet því til þess að það verði gert.

Þá vil ég einnig nefna að það sem ég hef áhyggjur af líka í þessu máli er að þarna er verið að leggja til að farið verði í auknum mæli í gegnum heilsugæsluna. Það er gott. Gott markmið. Við, Samfylkingin, höfum verið sammála því lengi.

Hins vegar hef ég áhyggjur af því að þegar menn leggja fram svona frumvarp, gera breytinguna, að aftur fylgi ekki fjármagn, þ.e. (Forseti hringir.) fara á að vísa fólki inn í svelta heilsugæslu. Verðum við ekki aðeins að taka okkur taki (Forseti hringir.) og reyna að ná saman um að setja einhverjar myndarlegar upphæðir inn í þetta svo að það geti orðið alvöruverkefni sem skilar alvöruárangri?