145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[15:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að heyra aðeins meira um skoðanir hv. þingmanns á tilvísunarkerfinu. Nú er ég mjög langt frá því að vera mjög fróður um sjúkratryggingakerfið, verð ég að viðurkenna, og þess vegna hef ég áhuga á að vita hvort slíkt hafi viðgengist víða í kerfinu og með hvaða afleiðingum.

Ef ég skil hv. þingmann rétt þá er ég sammála henni um það að ef um er að ræða tilvísunarkerfi og það varðar upphæðir þá er náttúrlega hætt við því að þessar tilvísanir verði á einhverjum tímapunkti umdeildar, þ.e. ef einhver fær tilvísun til læknis eða stofnunar sem viðkomandi er ekki sáttur við af einhverjum ástæðum. Það er hægt að ímynda sér milljón ástæður fyrir því, kannski staðsetning eða jafnvel að einhverjir einstaklingar tengist eða hvernig svo sem það er.

Þess vegna geld ég varhuga við því þegar ákvarðanir um upphæðir sem varða fólk mjög miklu eru bundnar nýjum kerfum eða nýjum reglum sem ekki eru til staðar fyrir.

Mig langaði að heyra meira frá hv. þingmanni um tilvísunarkerfi og þá sér í lagi hvort þau viðgangist nú þegar og þá hvar og hvað sé það helsta, ef nokkuð, sem hv. þingmaður gjaldi varhuga við varðandi þau.