145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[15:59]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Tilvísunarkerfi í heilbrigðisþjónustu. Það er eins og að ganga út á jarðsprengjusvæði að ræða þau, hvorki meira né minna.

En það var þannig áður fyrr að það tíðkaðist á Íslandi. Ég get að mörgu leyti verið hrifin af slíku kerfi en það er þó með mörgum fyrirvörum. Bæði er það þannig að þegar Ísland var tekið út, íslenskt heilbrigðiskerfi, eftir hrunið af erlendum aðilum, vakti það strax athygli þessara aðila að íslenska heilbrigðiskerfið er stjórnlaust. Þar stjórna sjúklingarnir ferðinni og kostnaðurinn, kostnaðarstjórnunin, er því miklu minni af hálfu ríkisvaldsins en í öllum öðrum ríkjum. Það er einmitt af því að við höfum ekki viðhaft neitt tilvísunarkerfi og erum með allan aukinn hlut í sérfræðiþjónustunni í einkareknum einingum úti um allt samfélagið þar sem einstaklingarnir sem veita þjónustuna eiga ríka hagsmuni af því að sjúklingarnir komi sem oftast til þeirra.

Svo er það auðvitað þannig að fjöldi fólks þarf að leita sérfræðings nokkuð reglulega og það geta verið mjög alvarlegar hindranir ef alltaf þarf að leita eftir tilvísun. Ef innleiða á slíkt kerfi, þarf að gera það af sanngirni og skynsemi.

Það þarf að koma böndum yfir þann hluta kerfisins sem er kominn í einkarekstur þar sem í raun og veru gildir sjálftaka. Mjög lítið eftirlit er með því. Það er sem sagt ekki síður framboðshliðin sem stjórnar magni heilbrigðisþjónustu sem veitt er en ekki endilega þörf sjúklinganna.