145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[16:02]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Grunnhugmyndin á bak við það frumvarp sem við höfum til umræðu er sú að setja þak á kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu.

Það er í sjálfu sér jákvætt skref því að heilbrigðiskostnaður sjúklinga, langveiks fólks og fólks sem mjög þarf á heilbrigðiskerfinu að halda er óheyrilegur eins og staðan er í dag, getur orðið óheyrilegur í verstu tilvikum. Það gerir enginn ágreining um það að takmarka þann kostnað sem fólk getur orðið fyrir vegna veikinda.

Hins vegar hlýtur framtíðarmarkmiðið að vera að hér verði við lýði gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta. Það er ekki nóg að setja þak á kostnaðarþátttöku sjúklinga og við eigum augljóslega mjög langt í land með það að gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta geti orðið að veruleika á Íslandi en hún er engu að síður raunhæft markmið.

Þeir sem þekkja til í heilbrigðiskerfum nágrannalanda okkar vita að hún er víðast hvar í þeim löndum nokkurn veginn við lýði, þótt ekki sé það kannski alveg. Við deilum ekki um markmiðið í sjálfu sér.

En það er margt við þetta frumvarp að athuga vegna þess að útfærslan á því er ekki góð. Hún er ekki góð vegna þess, eins og kom fram í fyrirspurn og andsvörum við ráðherrann áðan, að verið er að fjármagna breytingar á greiðsluþátttöku með aukinni kostnaðarþátttöku notendanna sjálfra.

Það stendur ekki til að draga úr heildarkostnaðarþátttöku sjúklinga heldur er um að ræða tilfærslu milli sjúklinga, lækkun fyrir þá sem eru mest veikir en hækkun fyrir hina sjúklingana. Ef af verður mun þetta frumvarp hækka kostnað hjá 48% en lækka hann hjá um 30%. Með öðrum orðum verða fleiri sem þurfa að taka á sig hækkun heilbrigðiskostnaðar heldur en hinir sem njóta lækkunar eða fara upp undir þakið.

Hækkunin er býsna mikil og snertir býsna marga sjúklinga sem eru í kerfinu nú þegar. Þannig verður 31% hækkun hjá þeim 85 þús. sem eru almennir sjúklingar með tilfallandi heilbrigðiskostnað og 73% hækkun hjá þeim 37 þús. Íslendingum sem eru lífeyrisþegar með tilfallandi heilbrigðiskostnað.

Eins og er komið fram þá eru í kringum 120 manns þiggjendur heilbrigðisþjónustu sem munu verða fyrir beinum hækkunum vegna þeirra tilfærslna sem hér eru lagðar til. (Gripið fram í: 120 þús.) 120 þús. Fyrirgefið. Hvað sagði ég? (Gripið fram í: 120.) Já, 120 þús. vildi ég sagt hafa. Takk fyrir, hv. þingmaður. (Gripið fram í: Þetta var vel meint.)Vel meint en illa sagt.

Það eru um 120 þús. manns sem verða beinlínis fyrir kostnaðarauka vegna tilfærslnanna í þessu frumvarpi.

Samanlagður kostnaður sjúklinga eftir breytingu, þ.e. hvers einstaklings, getur þá orðið um 157 þús. kr. á ári, þ.e. 95 þús. kr. vegna heilbrigðisþjónustu og 62 þús. kr. vegna lyfja og aðeins lægra hjá öldruðum og öryrkjum, í kringum 104 þús. kr.

Við náum ekki neinum markmiðum um gjaldfrelsi og ef af þessu verður færum við einungis til byrðar á milli þeirra sem kannski síst skyldi.

Nú er það þannig að hlutdeild sjúklinga í heilbrigðiskostnaði hefur hækkað mjög ört undanfarin ár. Til dæmis á árinu 2014 hækkuðu komugjöld á heilsugæsluna um allt að 20%, 15–20%, og hækkunin til sérgreinalæknanna var mun meiri. Ef farið er lengra aftur í tímann, síðustu áratugi, hefur kostnaðarþátttaka sjúklinga á Íslandi stóraukist og tvöfaldast á síðustu 30 árum. Hún er mun hærri hér en annars staðar á Norðurlöndum.

Það er umhugsunarefni að kannanir eða talnagögn sýna að 3% Íslendinga hafa hætt við að leita læknis vegna kostnaðar við læknisþjónustu. Á Norðurlöndum er hlutfallið 0,5%, hálft prósent, 3% hér. Í hópi tekjulægsta fólksins er þetta hlutfall 6% samanborið við 0,6% annars staðar á Norðurlöndum. Þetta hlýtur að vera verulegt umhugsunar- og áhyggjuefni.

Nú hefur ríkissjóður hagrætt hundruðum milljóna kr. með greiðsluþátttökukerfinu sem tekið var upp vegna lyfjakostnaðar frá 2013. Sú hagræðing skilar sér hins vegar ekki í lægra lyfjaverði til sjúklinga. Nú ætlar ríkið að hagræða enn með breytingum á greiðsluþátttöku vegna heilbrigðisþjónustu sem ætti auðvitað að skila sér í lægri kostnaði fyrir sjúklinga en gerir það ekki og það er ekki markmiðið, eins og fram hefur komið.

En það er grundvallarspurning, virðulegi forseti, hvort það geti talist eðlilegt að sjúklingar standi undir heilbrigðiskostnaði annarra sjúklinga. Eins og ég sagði í andsvari við ráðherrann leggst heilbrigðiskostnaður ekki á fólk eftir neinum sanngjörnum reglum, tekur ekki mið af efnahag, félagslegri stöðu, aldri, stéttarstöðu, búsetu eða neinu öðru því sem ákvarðar kjör fólks í daglegu lífi. Það gera skattar hins vegar, bætur og tekjuskerðingar, en heilbrigðiskostnaður er óháður öllu slíku því að heilbrigðisbrestir geta komið fyrir fólk á öllum aldri óháð efnahag, þjóðfélagsstöðu og fleiru.

Þess vegna er það takmarkað réttlæti að velta kostnaði af þeim sem mest þurfa á heilbrigðisþjónustunni að halda yfir á hina sem einnig þurfa á henni að halda en aðeins í minna mæli. Það verður einkum og sér í lagi barnafólkið sem mun bera þann kostnað, ef ég skil rétt þær upplýsingar sem koma fram í skýrslu Pétursnefndarinnar svokölluðu, t.d. tafla á bls. 12 sem sýnir hvaða hópar það eru sem nýta sér heilbrigðisþjónustuna sem stendur.

Barnafólkið á Íslandi þarf ekki á slíkum kostnaðarauka að halda því að unga kynslóðin í dag sem er að koma upp börnum sínum er fyrsta kynslóð Íslendinga sem hefur lakari kjör en foreldrarnir. Það segir auðvitað sitt um ástandið, skeytingarleysið um samneysluna og skeytingarleysið um almenna velferð í þessu landi. Það er ástæða þess að Íslendingar þyrpast nú úr landi eins og tölur sýna því að heilbrigðiskerfið er komið að fótum fram, það er neyðarástand í hjúkrunarheimilismálum og fleira sem úrskeiðis hefur farið og við höfum rætt á síðustu dögum og vikum.

Og víða er pottur brotinn, ekki aðeins í heilbrigðis- og velferðarkerfinu. Menntakerfið er stórlaskað og innviðir okkar eins og samgöngukerfið vanrækt og í sárri viðhaldsþörf á meðan við horfum upp á vaxandi ágang ferðaþjónustunnar sem er að spilla dýrmætum náttúruperlum og útgerðarauðvaldið makar krókinn í skjóli óréttláts kvótakerfis sem tryggir sérhagsmunaaðilum milljarða hagnað á meðan minni byggðir svelta.

Það er djúpstæður og alvarlegur vandi fyrir höndum í íslensku samfélagi og trúnaðarbrestur og siðferðisrof sem teygir sig um allt samfélagið. Þess vegna er tímabært og vonum seinna, og ég vil ræða það í samhengi við þetta frumvarp, að skipt verði um stjórnvöld í landinu. Hafi einhvern tíma verið þörf fyrir áherslur jafnaðarstefnunnar við stjórn landsins er það nú.

Til að setja umræðu dagsins í dag, t.d. umræðuna um skattaskjólin, í samhengi við grunngildi sem verða að vera til staðar í samfélögum þá er heilbrigðiskerfið og heilbrigðismálin á Íslandi kjörið dæmi inn í það samhengi, því að eignarhaldsfélög á lágskattasvæðum grafa undan velferðarkerfinu og sanngjarnri skiptingu á byrðum samfélagsins. Við erum einmitt að bíta úr nálinni með það í íslensku samfélagi þessa dagana.

Eða sjá menn ekki samhengið milli núverandi ástands í velferðarmálum okkar og þess hversu laskað heilbrigðiskerfið til dæmis er við skattundanskotin og þá staðreynd að ekkert ríki annars staðar á Norðurlöndum er með meiri fjármuni miðað við höfðatölu í skattaskjólum en Ísland? Tekjurnar skila sér ekki þangað sem þær eiga að berast. Þess vegna eigum við erfitt sem samfélag með að virða þá grunnreglu að þeir greiði sem geta og þeir fái sem þurfa.

Það er verkefni stjórnmálanna á næstu mánuðum og missirum að endurreisa velferðarkerfið og tryggja að samfélagslegur arður af auðlindum skili sér inn í ríkissjóð svo að við getum borið uppi velferðarkerfi. En það er líka algjörlega ljóst, eins og við sjáum af þessu frumvarpi, að við þann lúxus búum við ekki.

Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur ekki hugsað sér að nýta sér þær tekjulindir sem tiltækar eru í samfélagi okkar því að boðið er upp á frumvarp um tilfærslu kostnaðar í heilbrigðisþjónustu milli sjúklingahópa og ekkert sem bendir til þess að verja eigi frekari fjármunum inn í okkar langsoltna heilbrigðiskerfi, sem er komið að fótum fram.

Engin ríkisfjármálaáætlun fyrirliggjandi og enn hækka hrópin frá 90 þús. Íslendingum sem krefjast þess að frekari fjármunum verði varið til að endurreisa þetta kerfi.

En gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta er framtíðarkrafan og hún er réttlætismál. Þetta frumvarp fjallar ekki um gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu. Það fjallar einungis um að setja þak á kostnað sem gæti verið gott fyrsta skref en ágallinn er að það gerir ráð fyrir að velta þeim kostnaði yfir á aðra notendur heilbrigðisþjónustunnar.

Þess vegna er þetta frumvarp ekki í anda þeirrar jafnaðarstefnu sem ég persónulega aðhyllist og þess vegna finnst mér ekki hægt að fallast á efni þess eins og það lítur út nú. En það er ekki útilokað að þessari samkundu hér, þinginu, takist í meðförum nefndar að gera á því einhverja bragarbót.

Það hefði verið óskandi að lagt hefði verið fram metnaðarfyllra frumvarp með það fyrir augum að lækka almennan heilbrigðiskostnað sjúklinga á Íslandi.