145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[16:36]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fer ekki í neina sérstaka vörn fyrir þetta frumvarp. Ég tók skýrt fram að ég hef ekki mótað mér endanlega skoðun á því. Í frumvarpinu eru hins vegar nokkur nýmæli sem gleðja mig. Ég tel til dæmis að það hafi verið samfélaginu öllu til háborinnar skammar að það skuli virkilega hafa gerst að hópur manna — t.d. þeir sem hv. þingmaður nefndi hér áðan, fólk með krabbamein — hafi lent á milli skips og bryggju á þann hátt að það verður öreigar vegna sjúkdómsins. Það á ekki að gerast. Það er það sem gleður mig að samkvæmt frumvarpinu er það úr sögunni. Það er mjög mikilvægt skref. Ég tel líka mikilvægt að það kemur fram í frumvarpinu að barnafjölskyldur eru varðar að því marki að börn fá ókeypis heilbrigðisþjónustu; þau þurfa að vísu tilvísun til sérfræðinga, en það var eitt atriðanna sem ég nefndi sem ég er ánægður með.

Þarna erum við að stíga skref sem sker burt það sem mér fannst vera versti skavankinn. Þetta er örugglega ekki fullkomið frumvarp en þetta er skref í áttina að betra kerfi.

Ég tel að þessi ríkisstjórn verði kannski ekki mjög langlíf. Þá held ég að það bíði næstu ríkisstjórnar, ef frumvarpið verður samþykkt, að koma með fjármagnið sem gerir þetta að mjög fínu máli, ef að lögum verður. Það felst í því að setja aukið fjármagn inn í heilbrigðiskerfið þannig að það jákvæða í frumvarpinu haldist, að 30% sjúklinga fá lækkun, en hækkunin á hina verði tekin til baka. Ég mun glaður berjast fyrir því þegar við förum að bregða skjöldum í kosningabaráttu, (Forseti hringir.) ég og hæstv. heilbrigðisráðherra, og standa að því hér eftir kosningar …