145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[16:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, auðvitað horfir maður til þess að þessi ríkisstjórn verði ekki langlíf. Vonandi kemur ríkisstjórn sem setur heilbrigðismálin í forgang og mun sýna það í fjárlögum og í því hvernig hún dreifir skattbyrði í landinu. Þetta helst allt í hendur. Fólk vill greiða sanngjarna skatta miðað við tekjur og fólk vill að það skili sér í því að heilbrigðisþjónustan verði að mestu kostnaðarlaus fyrir almenning í landinu, hvar sem fólk býr og hvar sem það er statt í lífinu, hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna. Þannig samfélag viljum við bjóða upp á svo að við getum haldið þeim ungu barnafjölskyldum í landinu sem eru margar hverjar að sækja til Norðurlanda vegna þess að félagslega kerfið og heilbrigðiskerfið er með allt öðrum hætti en það sem hér hefur þróast.

Kostnaðarþátttaka hefur farið á verri veg undanfarin ár. Það er mikið áhyggjuefni. Kostnaðarþátttaka sjúklinga hefur verið að aukast undanfarin ár. Við þurfum að hafa miklar áhyggjur af því. Ég er alveg inni á því að hægt sé að taka undir og lýsa ánægju með margt sem náðst hefur fram í þessu máli. Það er langt frá því að vera alvont. En stóri gallinn á því er sá að verið er að færa til kostnað á milli notenda heilbrigðisþjónustunnar og sá kostnaður getur lent á fólki sem stendur ekki undir þeim kostnaði. Það er áhyggjuefni og á eftir að koma í ljós hvernig það verður. En aðalmálið er (Forseti hringir.) að setja meira fjármagn í heilbrigðiskerfið og lækka kostnaðarhlutdeild almennra notenda.