145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[16:41]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að taka þátt í þessari umræðu. Ég er nú ekki búin að lúslesa frumvarpið en búin að stikla á stóru. Ég er líka á því að frumvarpið sé í átt til betri vegar þó að ég vildi að sjálfsögðu að margt væri öðruvísi gert, eins og gefur að skilja. Við stöndum fyrir mismunandi nálgun í pólitík, ég og hæstv. ráðherra, en ég tek undir það sem hann hefur verið að reyna að tala fyrir, að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaður okkar í kerfinu og að við þurfum að styrkja það kerfi. Eitthvað er komið í gang þar varðandi sálfræðinga og er það vel, en við þurfum að gera betur.

Það var ágætt að heyra að bæta eigi upp kostnað sem heilsugæslan verður fyrir vegna þeirra mála sem hér er verið að ræða. Ég er í sjálfu sér ekki ósammála 1. tölulið 1. gr., en ég hef áhyggjur af því að það vantar heimilislækna, eins og við vitum. Það er töluverður skortur á heimilislæknum. Þá spyr ég: Hvað með það fólk sem hefur ekki heimilislækni? Hér er verið að tala um að ákveða megi gjald fyrir þjónustuna, það megi vera hærra ef sjúkratryggður sækir þjónustuna á aðra heilsugæslustöð eða til annars heimilislæknis en hann er skráður hjá. Það er það sem mér datt í hug þegar ég var að lesa þetta.

Varðandi 2. tölulið 1. gr. þá er ég afskaplega ánægð með það sem segir um tilvísunina. Ég tel að það sé í áttina. Þetta er eins og hið valfrjálsa tilvísunarkerfi í Danmörku, eða í áttina að því. Ég hef verið hlynnt tilvísunarkerfi og tel að við eigum að ganga enn lengra í þá átt. Þetta er skref í áttina og mér finnst ánægjulegt að sjá það nefnt hér til að stemma stigu við dýrari þjónustu. Við erum þá að mínu mati að verja skattpeningunum betur en ella.

Við erum öll sammála um að það vantar aukna fjármuni inn í kerfið. Það er það sem við viljum flest standa fyrir og 90 þús. manns hafa talið að svo sé, ef við vísum til undirskrifta sem margir hafa nefnt. Það er það sem ég hefði viljað sjá í frumvarpinu. Ég tek undir það að það hefði styrkt málið ef ríkisfjármálaáætlun hefði verið komin fram og við hefðum séð að ekki væri bara um að ræða millifærslu á fjármunum í kerfinu heldur væri verið að tala um aukna fjármuni til kerfisins. Það finnst mér agnúi á málinu.

Ekki er óeðlilegt að maður spyrji sig hér í þingsal, þar sem allt er óljóst um þinghaldið: Er þetta forgangsmál? Eigum við að fá að vita um forgangsmálin dag frá degi? Hvernig er það? Þetta er 1. umr. Það eru 22 dagar eftir af þinginu. Við eigum að geta klárað mál á stuttum tíma, það er alveg þekkt. En þetta er stórt mál. Það hefur vissulega verið unnið í þverpólitísku samtali, en þar komu mismunandi skoðanir fram.

Á bls. 14 er talað um áhrif á mismunandi hópa. Hér hefur verið farið ítarlega yfir það hjá hvaða hópi greiðsluþátttaka eykst og hversu stór hann er og hjá hvaða hópi greiðsluþátttaka minnkar. Ég tek undir það að mér finnst gott að verið er að koma bráðveiku fólki til aðstoðar með því að lækka greiðsluþátttöku þess, en ég segi enn og aftur: Ég hefði ekki endilega viljað að það færi í gegn með þessum hætti.

Í neðstu málsgrein segir:

„Gera má ráð fyrir að greiðslur um 37.000 manna hóps aldraðra og lífeyrisþega sem nota kerfið lítið muni hækka um 503 millj. kr. eða um 13.400 kr. að meðaltali.“

Nú höfum við heyrt af því, bæði í skýrslu ASÍ og í samtölum við fólk, að fólk sækir sér ekki þjónustu sökum bágrar stöðu. Það hefur frestað læknisheimsóknum vegna kostnaðar. Getum við þá gengið út frá því að því sé ekki þannig varið með þennan hóp, þ.e. að ástæðan fyrir því að þessi hópur hefur sótt sér litla þjónustu fram til þessa sé ekki sú að menn hafi einfaldlega neitað sér um læknisþjónustu? Ég hefði viljað sjá úttekt frá ASÍ og ráðuneytinu, sundurgreiningu á þessu. Kannski er hún til en ég hef alla vega ekki séð hana.

Eins og kom fram í ræðu ráðherra eru mörg greiðsluþátttökukerfi í gildi. Þó að við séum að byrja að taka til hefðum við þurft að ganga lengra því að lyfjakostnaður getur bæst ofan á þann hámarkskostnað sem hér er fyrir, þ.e. í kringum 95 þús. kr. — kostnaður getur þá orðið 60 þús. kr. til viðbótar. Heildarkostnaður sjúklings getur þá í mesta lagi orðið í kringum 155 þús. kr. Það getur verið stór biti fyrir marga, sérstaklega ef það skellur á á tiltölulega skömmum tíma.

Ég er ánægð með greiðsluþak, það er mjög mikilvægt, af því að ég nefndi þessa tölu hér, að þak sé sett á greiðslur. Það er löngu tímabært í ljósi þess að greiðsluþátttaka fólks er almennt allt of mikil. Við vinstri græn höfum talað fyrir því að hún verði sáralítil. Kannski er tvískinnungur í þessu að mörgu leyti. Heilbrigðisráðherra hefur mikið vitnað í geðheilbrigðisstefnu sína, sem er til umfjöllunar í nefndinni, en nú eiga þeir sem eiga við geðræn vandamál að stríða, ef ég hef skilið þetta rétt, að borga meira. Sá sem á við slík veikindi að etja þarf að borga tæplega 15 þús. kr. í fyrsta skipti sem hann fer til geðlæknis í stað 9 þús. kr. áður. Það er mikil hækkun.

Við vitum að fjölgun öryrkja má að mörgu leyti rekja til geðsjúkdóma og ég hefði viljað sjá þessa þjónustu lækka verulega og vera með fyrirbyggjandi aðgerðir. Það er margt sem við þurfum að bæta og breyta og ég trúi því að þessi vinna haldi áfram í nefndinni og að við náum meiru fram og þá fyrst og fremst í formi fjármuna. Geðheilsan og stoðkerfismálin — þetta eru veikindi sem valda oftast örorku. Ég hefði viljað sjá sálgæsluna sem stærri þátt; ekki einungis það að þjónusta sálfræðinga fari undir heilsugæsluna heldur verði líka niðurgreidd í kerfinu.

Þegar heilbrigðisráðherra kom í sjónvarpsviðtal, minnir mig, um þetta var talað við Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við hjúkrunardeild háskólans. Hann fór aðeins yfir frumvarpið og talaði um að öryrkjar væru að greiða meira en áður fyrir stakar heimsóknir til sjálfstætt starfandi sérfræðinga og sérfræðinga á sjúkrahúsi, þ.e. 2/3 af almennu gjaldi í stað helmings. Af því að við erum alltaf að tala um þennan hóp sem er illa staddur rímar þetta ekki nægilega vel og er kannski heldur ekki í samræmi við það sem kallað er eftir af fólkinu á undirskriftarlistanum og af fólkinu sem hefur sagt í öllum könnunum að það sé tilbúið til þess að verja sköttunum sínum til bættrar og aukinnar heilbrigðisþjónustu.

Hann segir að útfærslan hjá hæstv. heilbrigðisráðherra ýti undir vanda þess fólks sem hefur frestað því að fara til læknis. Mig langar til að hæstv. heilbrigðisráðherra bregðist við því hvort hann telji svo vera. Ég spurði áðan hvort þessi hópur væri þarna inni. Rúnar telur líka að kostnaðaraukningin hafi fælingarmátt þó að hún sé ekki mikil. Er það rétt mat hjá honum að kerfið sé of einstaklingsmiðað? Þyrfti að vera sérstakt greiðsluþak fyrir fjölskyldur? Ég er ekki búin að lúslesa skjalið en er til dæmis verið að tala um greiðsluþak fyrir hvern og einn í fimm manna fjölskyldu? Ef fjölskyldan er með ungt fólk á framfæri, 18–20 ára, í skóla og allir þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda eitt árið, er þá um að ræða þak fyrir þá fjölskyldu? Ég vona að ráðherrann geti skýrt það enn frekar.

Það er annað sem mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra um, af því að við erum nú bæði landsbyggðarfólk: Ferðakostnaður utan heimabyggðar er ekki inni í þessu ef ég hef lesið rétt, þ.e. í afsláttarkortinu og því. Hvers vegna ekki? Hann getur verið gríðarlega þungur baggi. Við viljum byggja upp sérhæfða heilbrigðisþjónustu hér á höfuðborgarsvæðinu. Í litlu samfélagi getum við ekki verið með mörg hátæknisjúkrahús og því þurfum við öll að sækja þjónustu á Landspítalann. Ég hefði viljað sjá að ferðakostnaður væri þarna inni. Ég spyr hvort það sé rétt hjá mér að svo sé ekki.

Ég vil að lokum ítreka að ég er í sjálfu sér ánægð með að hér eru stigin ákveðin skref. Ég hefði viljað sjá fjármuni en ekki millifærslur eins og gefur að skilja. Við vinstri græn höfum þorað að tala fyrir því að innheimta skatta, meðal annars til þess að standa undir þeirri velferð sem felst í því að byggja upp heilbrigðisþjónustu. Ég hef áhyggjur af því að við höfum veikt skattstofna ríkisins mjög og byggjum tekjur okkar afskaplega mikið á auknum ferðamannastraumi, lágu olíuverði, sem hefur skipt ríkisreksturinn töluverðu máli, og svo höfum við verið að byggja þetta á einsskiptistekjum, meðal annars í gegnum bankaskatt af föllnu bönkunum. Töluvert hefur því verið skorið niður í ríkistekjunum og ég hef áhyggjur af því af því að við eigum langt í land með að byggja upp innviðina, meðal annars heilbrigðiskerfið. Bara til að hafa sagt það þá tel ég að við værum komin á annan stað ef við hefðum ekki bara lækkað ríkisskuldirnar heldur á sama tíma lagt til aukið fé, enn meira en gert hefur verið. Kerfið var jú fjárvana 2008 þegar efnahagshrunið átti sér stað. Þörfin var gríðarlega mikil og hún er það enn eins og við heyrum ákall um.

Við erum með gott fólk í velferðarnefnd sem fer ofan í þetta mál og ég treysti því að það fari ofan í þá vankanta sem gætu leynst þarna. Mér sýnist spurningar vakna um reglugerð og fleira, sem ég hef verið að velta fyrir mér og kemur það væntanlega í ljós við umfjöllun nefndarinnar. Ég kem því áleiðis til þeirra sem þar sitja, bendi meðal annars á kaflann um sjúkrahús og eins kaflann um gjöld fyrir aðra þjónustu, 8. gr. um heilsugæslu.