145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[17:07]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir ræðuna. Ég vil í upphafi segja að hv. þingmaður kom inn á mjög marga punkta sem ég er sammála honum um og tel að þar séum við kannski þvert á sýn á samfélagið að ýmsu leyti sammála um hvað þurfi að bæta og hvar áherslan þurfi að vera. Mig langar að nefna sem dæmi það sem hv. þingmaður nefndi, svo sem landsbyggðina og aukna þjónustu þar og að sálfræðiaðstoð þurfi að koma inn í heilbrigðisþjónustuna. Hv. þingmaður kom einnig í máli sínu inn á það ákall sem hefur verið frá þjóðinni um að aukið fé verði sett í heilbrigðisþjónustu.

Hv. þingmaður sagði meira að segja sjálfur að það þyrfti aukna peninga inn í kerfið. Mig langar af því tilefni að spyrja hv. þingmann hvort hann sé reiðubúinn að slást í lið með okkur sem höfum talað fyrir því að hér þurfi að hækka skatta til að afla fjár til að geta sett inn í heilbrigðiskerfið í umræðu um það. Er hv. þingmaður til í það? Vill hv. þingmaður hækka með okkur skatta til að við getum eflt heilbrigðiskerfið eins og ég tel í það minnsta þörf á?