145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[17:13]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir þessar spurningar. Ég held að hún eigi ekki að verða fyrir vonbrigðum með það að ég vilji ekki endilega hækka skattana. Ég vil bara benda á þá leið sem ég minntist á, að auka verðmætin. Við höfum horft upp á sjávarútveginn á Íslandi auka verðmæti sín gríðarlega á undanförnum árum án þess að við göngum á hnattrænar breytingar í því sambandi. Þar hafa útgerðarmenn og sjómenn gengið fram fyrir skjöldu og nýtt sjávarafla miklu betur en nokkur önnur þjóð gerir. Þannig aukum við verðmætin.

Ég minni líka á að við eigum mikið af endurnýjanlegri orku. Ég er sammála hv. þingmanni um að við þurfum að fara varlega í því en þar liggja töluverð tækifæri til þess enn að auka þau verðmæti sem við sköpum í landinu. Þú segir að ég horfi bara á stækkun kökunnar. En eigum við þá eitthvað frekar að finna upp nýja skatta? Ég held að það sé mjög mikilvægt að skattar séu hóflegir á fólkið okkar og atvinnulífið og síðan gerum við því kleift að auka verðmæti, framleiða meiri, eins og við höfum til dæmis gert í heilbrigðiskerfinu. Hluti af verðmætunum sem við eigum er að skapa meiri verðmæti í heilbrigðiskerfinu með auknum afköstum og framleiðni sem er svo mikilvæg fyrir okkur öll í atvinnulífinu. Ég held að við gætum alveg náð saman í góðar tekjur án þess að auka álögur á fólkið í landinu, a.m.k. á meðan tækifærin eru svona mikil. (SÞÁ: Ég … það líka.) Það þurfa auðvitað allir að taka þátt í því, ég er alveg sammála því, fyrirtækin (Forseti hringir.) og fólkið.