145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[17:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef upplifað margar skrýtnar tilfinningar meðan ég hef setið á þingi. Núna sitjum við hér og ræðum við 1. umr. ágætt mál sem er bæði mikilvægt og áhugavert og vissulega virði þeirrar umræðu sem hér á sér stað. Þegar maður er byrjaður að sökkva sér ofan í málið og farinn að mynda sér aragrúa af skoðunum og hafa mikinn áhuga á því heyrir maður trumbuslátt hérna fyrir utan. Maður lítur út um gluggann og sér hóp fólks með rauða spjaldið. Það er komið saman, ekki til þess að mótmæla þessu máli heldur til að mótmæla setu okkar hérna.

Mér finnst skrýtin tilfinning að sitja hér og skoða þetta mikilvæga mál eins og við eigum þessu að venjast, eins og að það starf sem við vinnum hér, sem er mikilvægt, eigi að venjast því að sitja ávallt undir mótmælum.