145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[17:54]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Frú forseti. Það er gott að við séum hér á Alþingi að ræða þetta þarfa mál og að hæstv. ráðherra sé búinn að leggja það fram eftir alla þá miklu vinnu sem á undan er gengin í því. Það er gott að við séum að ræða það hér. Ég vona að við getum unnið það hratt og vel og að við getum samþykkt það fyrir þinglok, þ.e. ef á því finnast engir stórkostlegir ágallar.

Við í Bjartri framtíð höfum lengi vitað af þessu máli. Við höfum átt þarna góðan fulltrúa, Sigrúnu Gunnarsdóttur, sem hefur upplýst okkur um stöðu mála og framvindu. Ég tel ljóst að nefndin hafi unnið vel og með mjög upplýstum hætti að þessu máli. Við höfum fengið að vita að nefndarmenn voru samstiga og mjög sammála og gátu leyst farsællega úr sínum ágreiningsefnum. Án þess að ég tali fyrir það fólk skilst mér að það hafi verið sátt við niðurstöðuna.

Það sem þetta snýst um að mínu viti er að við erum fyrst og fremst að fjalla hérna um kerfisbreytingu á vondu kerfi. Það er gott að við erum að ráðast í hana. Greiðsluþátttakan er of mikil að mínu mati, en það er kannski önnur umræða. Hér erum við að ræða um kerfisbreytingu sem felst í því að jafna byrðarnar, jafna út kostnaðinn þannig að sá sem er með einhverja ákveðna sjúkdóma, eins og hefur verið rætt um, t.d. krabbamein, og þarf að fara í myndgreiningar og meðferðir sem einhverra hluta vegna, ég veit ekki af hverju, lenda meira á viðkomandi sjúklingi en ef hann væri með einhvern annan sjúkdóm — ég er bara ekki nógu vel að mér um það hver þarf ekki að borga, en við vitum að til dæmis þeir sem eru með krabbamein þurfa að bera allt upp í 1 milljón og borga úr sínum eigin vasa. Það sem hefur gerst er að alls konar sjúkrasjóðir hafa sótt í sig veðrið, sem betur fer, til að hjálpa fólki að standa straum af þessum kostnaði. Stéttarfélög hafa bætt í sjúkrasjóði hjá sér svo fólk geti sótt þar í. Fólk kaupir sér hærri sjúkdómatryggingar til að eiga fyrir því ef það veikist. Þetta á ekkert að vera svona. Ég held að við séum sammála um að við viljum hafa það þannig á Íslandi að fólk þurfi ekki sífellt að draga upp veskið og fara jafnvel í róttækar aðgerðir eins og að selja ofan af sér húsnæði, eða hvað veit ég, ef það greinist með einhverja ákveðna sjúkdóma. Þess vegna er gott að við séum með þetta frumvarp sem leggur til breytingar á þessu.

Svo er annað og meira mál sem við þurfum að ræða líka, það er mjög brýnt, að greiðsluþátttakan er samt sem áður of mikil og úr henni þarf að draga.

Það sem ég les líka úr þessu frumvarpi er — ég vona að ég lesi það rétt, annars vona ég að hæstv. ráðherra komi hingað og leiðrétti mig. Hann er við umræðuna og ég er mjög þakklát fyrir það — að þetta sé svolítið tvíþætt. Annars vegar er þessi kerfisbreyting og svo sýnist mér sem verið sé að innleiða ákveðið tilvísunarkerfi. — Ég heyri að því er jánkað. Það verkefni hefur legið fyrir og maður hefur eiginlega ekki skilið að það hafi ekki komist fyrr í gegn. Ég er ákaflega ánægð með að hér sé kominn vísir að því. Við vitum að kerfið eins og það er í dag er allt of kostnaðarsamt. Það er of dýrt fyrir íslenska skattgreiðendur. Þó að það sé voðalega þægilegt að við getum hvert og eitt leitað til þeirra sérfræðilækna sem við viljum er sú þjónusta of dýr fyrir okkur sem skattgreiðendur. Þegar upp er staðið eru það skattgreiðendur sem borga það í gegnum Sjúkratryggingar Íslands og það er mikilvægt að stýra aðsókn inn í þessi dýrari kerfi. Til þess höfum við heilsugæslustöðvar og heimilislækna sem eiga að sía út og svo vísa áfram ef þeir sjá að veikindin eru stærri en þau sem eiga heima á þeirra borði. Þá er vísað í rétt úrræði og ég fagna því að þetta sé líka hér inni.

Það sem er ekki hér inni og ég sakna mikið er sálfræði- og geðlækniskostnaður, allur sá kostnaður sem leggst á þá sem veikjast af geðrænum sjúkdómum. Við vitum að einn þriðji þeirra sem eru á örorku er þar út af geðrænum veikindum. Ef við ætluðum bara að spara og um leið láta fólki líða betur væri ákaflega viturlegt að hjálpa fólki betur og hafa þann lækniskostnað ókeypis, sálfræðikostnað, því að þá skilum við virkari samfélagsþegnum út í samfélagið á ný. Fólk vill borga sína skatta og axla sínar skyldur, fólk vill vera virkir samfélagsþegnar frekar en að vera á örorku. Það er gríðarlega mikilvægt að þessi þjónusta og þessi kostnaður sé inni í Sjúkratryggingum Íslands. Þetta finnst mér vanta í þetta frumvarp en ég veit að við gerum ekki allt í einu. Staðreyndin er samt sú að þetta er svo gríðarlega stórt mál og við erum alltaf að verða meðvitaðri um það, en það er ekki bara gott að breyta þannig eins og ég hef talað um, heldur meikar það einfaldlega sens, fyrirgefðu, frú forseti, að ég sletti, bara upp á bókhaldið okkar hér.

Ég á ekki sæti í velferðarnefnd núna en ég var þar fyrstu tvö ár mín á þingi. Þar er fólk auðvitað mjög meðvitað um þetta. Mig langar að beina því inn í nefndina eftir þessa umræðu hvort hún geti hugsanlega komið með einhverjar viðbótartillögur er varða kostnaðarþátttöku vegna geðrænna veikinda. Við vitum að það kostar þá kannski eitthvað aukalega og ég veit að þær tillögur sem hér liggja á borðinu eiga ekki að hafa aukin útgjöld fyrir ríkissjóð en að sama skapi, ef við hugsum þetta aðeins lengra, mætti færa rök fyrir því að ef við beindum fólki meira inn í heilsugæsluna, inn í ódýrari úrræði, ætti að sparast einhvers staðar annars staðar, þ.e. hjá sérfræðilæknum, og þó að fólki hér lítist oftast illa á það að eyrnamerkja peninga úr ríkissjóði fyndist mér vel hægt að færa fyrir því rök að sá áætlaði sparnaður færi í að greiða niður það sem fólk borgar fyrir sín geðrænu veikindi. Þetta er innlegg í vinnu nefndarinnar og ég vona að þeir sem á mig hlýða og sitja þar geti tekið það með sér inn í nefndina.

Það er eitt við þetta frumvarp sem ég staldra við og það er í 1. mgr. 1. gr. Ég yrði hæstv. ráðherra þakklát ef hann kæmi upp og útskýrði fyrir mér eitt þar. Þarna stendur, með leyfi forseta:

„Heimilt er að ákveða að gjald fyrir þjónustuna skuli vera hærra sæki sjúkratryggður þjónustuna á aðra heilsugæslustöð eða til annars heimilislæknis en hann er skráður hjá.“

Þetta er sjálfsagt eitthvert útfærsluatriði en mig langar að velta því hér upp. Við vitum að staðan er þannig að það er erfitt fyrir fólk yfir höfuð að komast að hjá heimilislæknum og komast að hjá heilsugæslustöðvum, við vitum að ef maður ætlar að sækja einhverja þjónustu á heilsugæslustöð verður maður að hafa skráðan heimilislækni þar. Ég get sagt eina góða dæmisögu af sjálfri mér. Ég er flutt í annað hverfi. Heilsugæslustöðin þar er á ská á móti mér og þar er ég með börnin mín í ungbarnaeftirliti, en enginn heimilislæknir getur tekið á móti okkur þar af því að hann er ekki til staðar. Það er eitthvert los á því, það fæst enginn til að vinna þar. Þetta er samt ekkert úti á landi, þetta er bara uppi í Hvassaleiti. Við komumst ekki að þar. Ef ég sæki ekki þjónustuna mína þar, ef ég tek sjálfa mig sem dæmi, á ég þá út af þessu vandamáli á hættu að þurfa að borga meira, eða hvað? Þetta stakk í augu sem stendur þarna í 1. mgr. 1. gr. og við vitum að þetta er ekkert einsdæmi með mig og mína fjölskyldu. Fólki reynist erfitt að komast að hjá heimilislækni.

Maður heldur svo sannarlega fast í það ef maður er kominn að á einum stað. Af því að ég kem ofan úr Biskupstungum sleppti ég ekki takinu af mínum heimilislækni, hann þekkti mig og mína sjúkrasögu og allt það. Þó að ég væri komin til Reykjavíkur 16 ára gömul var ég alltaf þar. Ef ég hefði ekki mætt til hans og þetta hefði verið komið í gagnið, hefði ég þá ekki átt rétt á því að fá þetta mótframlag frá sjúkratryggingum? Ég er að hugsa um einhverja sem eru þá í svipaðri stöðu og ég var þá. Mig langar bara að heyra um þetta hjá ráðherra ef hann vildi vera svo vænn að bregðast aðeins við þessu. Ef þetta er ekkert vandamál er það nokkuð sem nefndin tekur með inn í sína vinnu. Ég ætla að taka fram að vera má að þetta sé eitthvað útlistað, ég hef ekki haft tíma til að fara nægilega vel yfir öll gögn þessa máls.