145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[18:16]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég sagði það í fyrri ræðu minni að ég hygðist koma hingað upp og ræða aðeins meira um það tilvísunarkerfi sem boðað er. Ég fór yfir það í andsvari áðan að Ísland hefur vakið athygli fyrir þá sérstöðu að vera ekki með neina þjónustustýringu, en með frumvarpinu er verið að gefa ráðherra heimild til þess að innleiða slíka stýringu og samkvæmt reglugerðinni sem fylgir með er verið að innleiða tilvísunarkerfi fyrir börn í íslensku heilbrigðiskerfi. Það kunna að vera mörg rök fyrir slíku. Ég tel mjög gott að við förum að taka þá umræðu af alvöru, en ég hef líka áhyggjur af því að lögin um sjúkratryggingar gefa ráðherra hverju sinni mjög mikið vald til þess að taka stefnumótandi ákvarðanir í heilbrigðismálum og hér erum við að færa heimild til innleiðingar tilvísunarkerfis án þess að vita beinlínis hvenær það eigi að fara fram eða hvernig það sé hugsað.

Því hefur verið fagnað í umræðunni að gjaldfrjáls þjónusta verði fyrir börn. Það er þannig í dag að heilsugæsluþjónusta er gjaldfrjáls fyrir börn. Þar verður engin breyting á. Mjög jákvætt er að þjálfunin kemur inn og mun það muna fyrir þær fjölskyldur með börn sem þurfa á þjálfun að halda. Þetta er sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun eftir því sem ég best veit. En svo kemur að tilvísunarhlutanum. Í dag greiða börn 1/9 af fullu almennu gjaldi og það er að lágmarki 890 kr. en ef þau eru með afsláttarkort 650 kr. Almennt er ódýrt að fara með börn til sérfræðilækna á Íslandi. Nú á að breyta því þannig að það hækkar gríðarlega ef ekki liggur fyrir tilvísun frá heimilislækni. Þá ber að geta þess að aðgengi fólks að heimilislæknum er mismikið hér á landi. Sumir eru á heilsugæslustöð þar sem þeir þurfa ekki að bíða nema örfáa daga eftir að hitta heimilislækni, aðrir gætu þurft að bíða allt að þremur vikum. Mér skilst að það geti jafnvel verið enn lengri tími. Þarna er því aðstöðumunur.

Rétt í þessu er verið að bjóða út rekstur þriggja heilsugæslustöðva án þess að ætlað sé inn í það fjármagn. Læknafélagið gerir athugasemdir við það. Öll umræða um tilvísunarkerfi verður því að takast út frá því kerfi sem hún á að funkera í. Á meðan við erum ekki með nægilega öfluga heilsugæsluþjónustu þá erum við að setja barnafjölskyldur á ákveðnum svæðum í mikinn vanda og gera því fólki sem er efnameira kleift án vandræða að fara með börnin sín til sérgreinalækna á meðan þeir sem efnaminni eru þurfa að reiða mun meira fé af hendi til að fá slíka heilbrigðisþjónustu. Þetta er auðvitað eitthvað sem við munum þurfa að fara mjög vel yfir í nefndinni, hvernig breytingin mun hafa áhrif á aðgengi barna að heilbrigðisþjónustu og ekki sé verið að auka á eða búa til einhvern mun á aðgengi með þessu kerfi.

Það er stuttur tími sem við höfum í annarri ræðu þannig að ég get ekki farið lengra í umræðu minni um tilvísunarkerfið, nema að ég tel að erfitt sé að veita heimild til innleiðingar slíks kerfis þegar við vitum ekki nákvæmlega hvernig þróunin verður í heilsugæslunni og þegar við höfum engar upplýsingar fengið um hvaða fjármagn núverandi ríkisstjórn hyggst setja inn í heilbrigðiskerfið. Ég óska eiginlega eftir þeim þó að hæstv. heilbrigðisráðherra geti ekki veitt þær upplýsingar. En það verður að fara að koma fram á vettvangi þingsins hvernig ríkisfjármálaáætlunin á að líta út því að þetta er of mikilvægur málaflokkur til að við getum rætt hann án þess að vita hver þróunin á fjárheimildum inn í hann á að vera.