145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[18:31]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið og spyr í leiðinni hv. þm. Kristján L. Möller hvað hann haldi að valdi því að við séum í þessari umræðu núna. Hvað heldur hv. þingmaður að valdi því að við erum í dag með hátt í 40 greiðslukerfi í heilbrigðisþjónustunni? Það sem veldur því er meðal annars það að við reynum alltaf af veikum mætti að mæta félagslegum þætti inn í gjaldskrárgerðinni. Ég nefni sem dæmi kviðsjáraðgerð sem kostar 17.600 kr. Ef menn borga hana með afsláttarkorti er hluturinn 7.100 kr. Ef um er að ræða aldraða eru það 9.900. Ef það eru aldraðir með afsláttarkort kostar aðgerðin 6.400 kr. Fyrir öryrkja eru það 6.800 kr. Fyrir öryrkja með afsláttarkort 3.500 kr. Þannig mætti halda áfram. Í sjúkraþjálfun eru tíu gjaldflokkar. Það sér enginn í gegnum þetta. Heilbrigðiskerfið verður að vera ein gjaldtaka og svo verðum við að veita félagslegan stuðning á annan hátt, annars verður þetta sá grautur sem allir hafa verið að reyna að komast út úr í gegnum árin.

Varðandi kortið er ég er ekki vel heima í því en kerfin sem er verið að reyna að vinna og setja upp varðandi lyfin og eins greiðslukerfið í heilbrigðisþjónustunni tengir saman kennitölur á einhvern hátt sem ég ekki kann. Þegar menn eiga í viðskiptum við kerfið er þetta rauntímauppfærsla. Menn þurfa ekki beinlínis kort heldur eru þeir bara slegnir inn og kerfið heldur utan um þetta. Þetta eru tækniatriði sem ég er ekki vel heima í, en mér er sagt svo frá að verið sé að búa kerfin þannig til að þetta verði rauntímafærslur.