145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[19:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég hef áður lýst sögulegu mikilvægi þeirrar þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir á endanlegu formi. Það er ekki síður sögulegt að takast skuli slík samstaða um þessa stefnumótun á Alþingi Íslendinga að það liggur fyrir að enginn mun greiða atkvæði gegn ályktuninni.

Þetta hefur verið töluvert langur leiðangur sem hófst með því að ég lagði á sínum tíma, árið 2011, fram þingsályktunartillögu um að þjóðaröryggisstefna yrði mótuð af sérstakri nefnd sem fulltrúar allra flokka sætu í. Sú nefnd starfaði mjög vel undir frábærri forustu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, vann mikið, dró að sér mikil gögn og að lokum má segja að fyrir hafi legið fullbúin afurð. Það tókst hins vegar ekki vegna pólitískra aðstæðna, mundi ég segja, að sigla málinu algerlega til hafnar. Eins og menn muna, sem komu að því máli, voru pólitískir úfar um einstaka töluliði í tillögunni sem nú liggur fyrir.

Það er rétt að rifja þetta upp vegna þess að hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir fór mjög málefnalega og vel yfir fyrirvara síns flokks, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það er alveg hárrétt hjá henni að sá ágæti flokkur er að stíga stórt skref með því að vera aðili að því að leggja málið fyrir þingið eftir vinnu í utanríkismálanefnd og lýsa því jafnframt yfir að hann muni ekki bregða fæti fyrir samþykkt tillögunnar. Það er nauðsynlegt að það komi fram að það er ekki síst vegna þess að meira en blæbrigðamunur var á millum þeirra flokka sem aðild áttu að nefndinni sem málið kemur svona vel búið til þingsins. Ég tel að það hafi skipt máli til að yfirvinna andstöðu innan nefndarinnar sem vann undir forustu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur að Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagði til dæmis mjög mikla áherslu á það málefni sem kemur fram í 9. tölulið, þ.e. um kjarnorkuvopnahlutleysi Íslands. Það eru vissulega fleiri flokkar en Vinstri hreyfingin sem styðja það hér en andstaða var við það innan nefndarinnar á sínum tíma. Ég tel að það sé rétt og tímabært að flytja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra, Gunnari Braga Sveinssyni, sérstakar þakkir fyrir það verk að koma málinu í þessu formi til þingsins á þann veg að það er gerlegt fyrir alla, að minnsta kosti með fyrirvörum sem raktir hafa verið, að standa að tillögunni eins og hún liggur fyrir. Það er mjög mikilvægt.

Það er sömuleiðis mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að þessi ályktun er rökrétt framhald af þeirri hefðbundnu öryggismálastefnu sem lýðveldið Ísland hefur nánast frá upphafi fylgt. Allar götur frá því að það var stofnað má segja að ríkt hafi eindrægni og samstaða meðal lykilflokka á Alþingi Íslendinga sem hefur ekki brugðist hvað sem á hefur dunið í pólitískum veðrum. Það er mikilvægt að það liggi skýrt fyrir að sú stefna er partur af þessu, um leið og það er undirstrikað, bæði af mér og öðrum, að ekki eru allir flokkar á Alþingi sammála þeim parti. Hins vegar hefur þessi tillaga líka breyst í meðförum utanríkismálanefndar. Gerð hefur verið ákveðin málamiðlun sem ég tel að bæti tillöguna verulega. Ef hin upphaflega tillaga til þingsályktunar er borin saman við þær niðurstöður sem lágu meira og minna fyrir af hálfu nefndar hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur er nokkur munur ljós. Í töluliðunum sem lágu fyrir í upphaflegu tillögunni var fyrst og fremst lögð áhersla á þær öryggisógnir sem segja má að séu styrjaldartengdar. Það var töluvert úr takti við greinargerð sjálfrar tillögunnar og ekki síst það víkkaða öryggishugtak sem vinna nefndar hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur byggði á; sem var áhættumatsskýrslan sem unnin var undir forustu prófessors Vals Ingimundarsonar.

Það er rétt að skoða söguna aðeins aftur í tímann. Upphaf þessa máls, sem segja má að felist í því að mönnum fannst sem nýjar ógnir hefðu skotið upp kolli meðan hinar gömlu dvínuðu, var skýrsla sem Jón Sigurðsson, síðar formaður Framsóknarflokksins, vann fyrir þáverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, og kom út, að mig minnir, 1998. Í öllu falli kom hún út rétt fyrir árið 2000. Þar voru þessi mál í fyrsta skipti reifuð af hálfu stjórnvaldsins og nauðsyn þess að taka þau inn í öryggisstefnu sem gert var ráð fyrir í þeirri skýrslu að yrði mótuð einhvern tíma í framtíðinni. Það var svo ekki fyrr en meira en áratug síðar að ráðist var í það af fyrri ríkisstjórn.

Ég er því mjög ánægður með þær breytingar sem hv. þingmaður, formaður utanríkismálanefndar, hefur mælt fyrir og tekur mið af viðhorfum sem uppi voru, sérstaklega innan stjórnarandstöðunnar en náðu raunar víðar líka, bæði í formennskutíð hennar og sömuleiðis á meðan hv. þm. Birgir Ármannsson veitti nefndinni forstöðu. Það er sagt algerlega skýrt að í stefnunni eigi að taka mið af ógnum sem tengjast loftslagsbreytingum, náttúruhamförum, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttum. Það skiptir miklu máli að þetta komi inn vegna þess að þetta er í anda hins nýja öryggishugtaks. Stefna af þessu tagi þarf að ná yfir þetta allt saman.

Hv. þm. Birgir Ármannsson sagði að við mættum ekki láta þar nótt sem nemur heldur yrðum að halda starfinu áfram. Ég er honum algerlega sammála um það. Þá kemur að því að velta fyrir sér með hvaða hætti hægt er að gera þetta að sívirkri stefnumótun, gera þetta að stefnu sem er stöðugt í endurnýjun og breytist eftir breytingum sem verða í umhverfi Íslands. Þar tel ég að þjóðaröryggisráð skipti höfuðmáli. Þegar sú hugmynd var reifuð upphaflega mætti henni slíkt fálæti af margra hálfu að það var varla talið tækt að leggja hana fram sem tillögu. En hér í dag hefur það gerst að allir þeir sem hafa tekið til máls, eða langflestir, telja að það sé einkar góð hugmynd. Ég er þeirrar skoðunar að þjóðaröryggisráð, sem er í laginu eins og því var lýst í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur hér fyrr í dag, sé einmitt svarið við því hvernig hægt er að tryggja framkvæmd stefnunnar og tryggja að hún breytist í takt við breyttar þarfir. Þetta þarf að vera ráð sem hittist reglulega en kemur ekki bara saman þegar aðsteðjandi vá ber að dyrum.

Efasemdir manna um þjóðaröryggisráð stöfuðu meðal annars af því að það kynni að stangast á við það almannavarna- og öryggismálaráð sem er fyrir hendi í dag. Ég átti sæti í því sem einn af handhöfum framkvæmdarvaldsins. Mín reynsla var sú að það var aldrei kallað saman til stefnumótunar heldur einungis til þess að bregðast við aðsteðjandi vanda. Undir engum kringumstæðum var ég boðaður til fundar við það ráð að öðru leyti. Það kom síðan fram, frú forseti, í umfjöllun og vinnu hv. utanríkismálanefndar, frá fulltrúum Landhelgisgæslunnar og innanríkisráðuneytisins að það ráð hefði aldrei verið boðað saman beinlínis til þess að taka þátt í umræðu um stefnumótun eða að leggja drög að stefnu á því sviði. Hér er sagt, í einum töluliðnum í ályktuninni, sem við samþykkjum væntanlega á morgun, að stefna stjórnvalda í almanna- og öryggismálum, mótuð af almannavarna- og öryggisráði, eigi að vera hluti af þjóðaröryggisstefnu. Gott og vel. En ráðið þarf þá að koma saman til þess að ræða það. Og ég ætla að nota tækifærið til þess að vekja eftirtekt á þessu og gagnrýna að svo sé ekki. Það er ekkert sem ég er að saka núverandi ríkisstjórn um vegna þess að það var nánast engin breyting á tíma hennar frá því sem var þegar ég sat í ríkisstjórninni. En þetta var hins vegar mál sem mér rann til rifja og ég bar upp á ríkisstjórnarfundi.

Ég tel líka að það sé mjög til bóta að nýr töluliður komi sem varðar það að stefna stjórnvalda eigi að taka mið af öðrum ógnum sem við þurfum líka að hafa hliðsjón af, eins og til dæmis hermdarverkum. Ég er þeirrar skoðunar að stjórnvald þurfi alltaf að reyna að búa sig undir það sem enginn ætlar að geti gerst. Hermdarverk af einhvers konar tagi eru slíkar ógnir. Ég er líka þeirrar skoðunar að Ísland sé ekki nægilega vel búið undir það að takast á við slíkar ógnir ef upp kæmu og sömuleiðis tel ég að í alþjóðlegum skuldbindingum Íslendinga, alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að, séu tækifæri til þess að treysta þær varnir. Ég tel algerlega ljóst í ljósi þess hvernig tímarnir eru að breytast — við höfum séð bara á þessum vetri með hvaða hætti ógnir sem við töldum að væru fyrst og fremst bundnar við aðra heimshluta eru farnar að valda usla í samfélögum sem okkur standa næst — að leggja þurfi ríkari áherslu á það að Ísland sé líka reiðubúið undir það sem við köllum ef til vill í hugum okkar óhugsanlegt. Ég tel að með þessari viðbót séu komin skýr fyrirmæli um það með hvaða hætti þjóðaröryggisráð á meðal annars að velta málum upp.

Þegar þróun hins nýja öryggishugtaks hófst á síðasta áratug nýliðinnar aldar voru allt öðruvísi tímar uppi en höfðu verið áratugum saman. Kalda stríðið var að hníga að velli. Við tók annað skeið og menn orðuðu það stundum svo í lýsingum sínum að það hefði brotist út friður. Á þeim tíma var það mat bæði okkar og annarra þjóða að engar líkur væru á því að viðsjár yrðu uppi í okkar heimshluta. Nú, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson lýsti því áðan, er þetta í einu vetfangi gerbreytt. Þetta breytist með örskotshraða á minna en tveimur árum. Það getur haft miklar breytingar í för með sér fyrir Ísland. Það þarf til dæmis að vera eitthvert tiltækt stjórnvald sem sinnir því af natni ef þörf krefur að gera nýtt hættumat ef aðstæður breytast. Í dag er það þannig að samkvæmt regluverkinu og lögum er það ríkislögreglustjóri sem á að hafa það með höndum. Það kom nýtt hættumat í vetur í tilefni af þeim hræðilegu voðaverkum sem urðu úti í Evrópu en að mestu leyti var það eins og endranær tekið upp frá öðrum erlendum stofnunum eins og Atlantshafsbandalaginu og öðrum ríkjum. Sjálfstætt fullvalda ríki þarf að búa yfir tækjum til að geta sjálft lagt mat á það hvernig aðstæður eru hugsanlega að breytast.

Átökin í Úkraínu fæddu af sér margvíslegar umræður. Þar sáum við nýja tegund af styrjaldartengdum átökum, eins konar feluhernað sem óljóst var þegar upp spratt hvort mundi til dæmis falla undir 5. gr. í Atlantshafssamningnum. Búið er að leysa það skilgreiningarvandamál. En í tengslum við þá umræðu var ljóst að það reis mikill ótti til dæmis við að eitthvað svipað kynni að gerast í Eystrasaltsríkjunum. Þau eru meðlimir í NATO. Þá mundi 5. gr. virkjast. Það mundi þýða að NATO væri þá hugsanlega komið í átök við Rússland. Það getur samstundis breytt stöðu Íslands, þó að það gerist í heimshluta sem jafnvel okkur finnst vera fjarlægur okkur, þótt hann sé partur af Evrópu. Ef við skoðum söguna sjáum við að um leið og það mundi gerast mundi það þýða átök um höfn eins og til dæmis í Murmansk. Við sjáum að alltaf þegar Rússar hafa farið í átök hefur það samstundis leitt til þess að Bosporus er lokað. Öll þau stríð sem Tyrkir og Rússar hafa háð, sautján talsins, hafa alltaf snúist um Bosporus að einhverju leyti og umferð þar. Pétursborg var bókstaflega byggð vegna þess að Rússar gátu ekki treyst því að þeir kæmust yfir í Miðjarðarhafið. Og það er alveg ljóst að ef átök yrðu sem tengdust með einhverjum hætti viðsjám Atlantshafsbandalagsins og Rússa á vettvangi Eystrasaltsríkjanna yrði Ísland um leið, vegna varna Murmansk, orðið að framlínuríki. Svona geta hlutirnir breyst mjög hratt. Við þurfum alltaf að hugsa það sem er óhugsandi. Þetta er eitt af því. Þetta er þess vegna partur af verkefnum sem þjóðaröryggisráð ætti að sinna með reglulegum hætti, geta kallað til akademíuna ef þarf, til þess að fá gögn og skýringar, og hvaða sérfræðinga sem er. Þar tel ég að öllu eigi til að kosta.

Það var þess vegna sem ég gekk eftir því við hæstv. utanríkisráðherra hvort hún mundi ekki, á þeim skamma tíma sem eftir lifir af þingi og kjörtímabilinu, eins og hlutirnir hafa velkst, leggja fram það frumvarp sem þarf til þess að stofnsetja þjóðaröryggisráðið. Það kemur fram í þessari tillögu að setja þarf það á laggir með sérstökum lögum sem verða þá væntanlega unnin í samvinnu utanríkis- og innanríkisráðuneytisins; ég tel að minnsta kosti að það eigi að leggja fram af hæstv. utanríkisráðherra og ég hvet hana til þess að gera það. Ég er sannfærður um að þeir hershöfðingjar sem hún hefur yfir að ráða í utanríkisráðuneytinu eru þegar tilbúnir með slíkt frumvarp. Þó að hér kunni að vera skammur tími á Alþingi Íslendinga tel ég að nota eigi skriðinn í þessu máli til þess að ljúka því. Þetta er mál sem þrír utanríkisráðherrar hafa komið að, sem þrjár ríkisstjórnir munu koma að áður en því verður að fullu lokið. Ég tel að hæstv. utanríkisráðherra eigi að setja mark sitt á þetta ferli með því að beita sér fyrir því að frumvarpið komi fram. Það er mjög auðvelt fyrir mann eins og til dæmis hv. þingflokksformann Framsóknarflokksins, Ásmund Einar Daðason, að sjá til þess að friður náist við stjórnarandstöðuna um að koma því í gegn. Hann þarf ekki annað en að beita sér fyrir því að fram komi dagsetning fyrir næstu kosningar og þá fellur hér allt í ljúfa löð úr því sem komið er innan dyra, ég lofa engu um það sem gerist utan dyra.

Að lokum, frú forseti, er ég ánægður með það hvernig þetta mál hefur verið unnið og hversu margir hafa komið að því. Þetta er til marks um það hvernig Alþingi Íslendinga á að vinna flókin verkefni. Þetta er mál sem varðar langa framtíð. Mikil vinna hefur verið lögð í það og hún hefur verið vönduð í alla staði.