145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[20:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda stutta ræðu um þjóðaröryggi og þætti sem það varða. Þjóðaröryggi er í mínum huga mjög óþægilegt orð. Ástæðan fyrir því er sú að frá aldamótum og reyndar lengur hafa hræðilegir hlutir verið gerðir í nafni þjóðaröryggis erlendis; hlutir eins og njósnir, stríð, pyndingar og annað eins. Þegar við tölum um þjóðaröryggi er mjög mikilvægt að við höfum í huga að hægt er að gera hræðilega hluti í nafni einhvers sem annars er mikilvægt. Það er mjög mikilvægt að hafa þjóðaröryggisstefnu og að við komum henni á fót. En með því að halda fólki hræddu við hryðjuverk eða önnur öryggisatvik er hægt að láta það samþykkja hluti sem það annars mundi aldrei samþykkja, ýmsar skerðingar á borgararéttindum til dæmis, frestun eða jafnvel afnám lýðræðis. Slíkt hefur verið gert margsinnis í gegnum söguna, af öryggisástæðum, iðulega reyndar.

Sem betur fer er ekki sú hernaðarmenning á Íslandi eða njósnamenning eða ofbeldismenning nokkurs konar sem veitir íslenska ríkinu ýmist burði til eða hagsmuni af slíkum mannréttindabrotum eða því um líku. Maður hefur ekki áhyggjur af því að slíkt mundi henda hér á landi. En við búum í heimi og við vinnum með öðrum þjóðum í þeim heimi. Í þeim heimi geta átt sér stað öryggisatvik sem hafa áhrif hér, jafnvel þótt þau eigi sér ekki stað hér. Reyndar mætti færa rök fyrir því að enginn hafi raunverulega langtímahagsmuni af því að bregðast við öryggisógnum með því að takmarka borgararéttindi og frelsi og lýðræði og því um líkt.

En þegar talað er um hluti eins og nýjar ógnir, þá finnst mér það mjög óþægilegt orðalag, jafnvel ef satt er, jafnvel ef menn finna eitthvað nýtt í nýjum ógnum. Stríð er ekki ný ógn, hryðjuverk eru ekki ný ógn, en hugtakið ný ógn hljómar í fljótu bragði eins það kalli á ný viðbrögð. Sér í lagi í byrjun þessarar aldar voru menn merkilega opinskáir með það hvað þeir áttu við og þeir áttu við varanlegt neyðarástand, þeir áttu við svokallað stríð við hryðjuverk, sem enginn gat útskýrt hvenær ætti að enda, við hvaða skilyrði eða hvar það væri háð. Þetta væri einhvers konar varanlegt neyðarástand sem gerði að verkum að núna þyrftum við að vaxa úr grasi og gefa upp á bátinn draumsýnina um frelsið sem við annars áttum að njóta.

Þetta er raunveruleg hætta. Ég vil meina að þetta sé raunveruleg öryggisógn. Það er nefnilega ekki þannig að hryðjuverk og slíkar ógnir séu einungis hætta gagnvart lífi og limum fólks heldur einnig gagnvart frelsinu sjálfu og lýðræðinu og þeim réttindum sem við tökum annars sem sjálfsögðum hlut. Þegar hryðjuverk eiga sér stað eða önnur öryggisatvik sem kalla á skjót og skýr og rétt viðbrögð er mjög mikilvægt að þeim sé svarað af þokkalegri yfirvegun, að ekki sé farið með óðagoti í viðbrögðin við öryggisatvikum. Það er þess vegna sem það er mikilvægt að við séum með plan. Slík plön mega ekki leiða af sér varanlegt neyðarástand og þau mega ekki leiða af sér óðagot eða taugaveiklun í viðbrögðum. En forsenda þess að fyrirbyggja slíkt óðagot og varanlegt neyðarástand er að hafa plan sem sætir reglulegri endurskoðun og er í meginatriðum opinbert, eins og þetta er.

Þessi ótti minn og fleiri við þessi hugtök, eins og ný ógn og allt það, er ekki rök gegn því að hafa öryggisstefnu heldur þvert á móti rök fyrir því. Við þurfum að hafa öryggisstefnu og hún þarf að vera skýr. Það er mjög gleðilegt að við búum í samfélagi þar sem við getum haldið opinberar umræður um það hvernig við ætlum að hafa öryggisstefnuna. Það eru mörg lönd þar sem það kemur ekki til greina, þar sem menn ætla að leyndarhyggjan sé forsenda öryggis. Það er þá sem menn eru á hálum ís. Því miður gerist það of oft en sem betur fer ekki hér, alla vega ekki núna.

Hvað varðar alþjóðlegt samstarf þá er ein sérstök tegund af — ja, jú, við skulum kalla það nýja ógn, sem varðar upplýsingatækni. Það er ógn þar sem við erum mun nær öðrum löndum en við höfum fengið að venjast. Internetið er í meginatriðum án landamæra og allt er meira og minna nettengt núna og sífellt meira og meira. Það þýðir einnig að mikilvægir innviðir eru líka með einum eða öðrum hætti tengdir við internetið. Meira að segja innviðir sem hafa ekki verið tengdir við netið hafa samt orðið fyrir innbrotum. Það er vegna þess að öflin sem sérhæfa sig í tölvuinnbrotum eru orðin svo sterk að það er erfitt að ýkja það. Sumt af þessari tækni, sem maður les um að hafi komist upp, hljómar eins og eitthvað sem þyrfti geimverur til að búa til. Þegar öryggissérfræðingar lýsa sumum hlutum sem hafa fundist á maður erfitt með að trúa því að það hafi raunverulega átt sér stað. Það er þess vegna sem það er ljóst að um er að ræða mjög vel fjármögnuð, mjög vel þjálfuð og hámenntuð, þróuð ríki — ríki á borð við Bandaríkin, Ísrael eða eitthvað svoleiðis; ríki sem hafa yfir að ráða sérstaklega mikilli þekkingu og sérstaklega miklu fjármagni til að standa að slíkum tölvuinnbrotum.

Það er þess vegna sem ég minni enn og aftur á að það er mjög mikilvægt að við hugsum langtímaöryggishagsmuni Íslands ekki einungis út frá því hvaða þjóðum við erum í meginatriðum í liði með, segjum til dæmis Bandaríkin, heldur höfum við líka í huga undirliggjandi hagsmuni sem ná ekki það vítt. Að mínu mati eigum við fyrst og fremst að horfa til Norðurlandanna í þeim skilningi. Þótt við höfum sömu öryggishagsmuni í meginatriðum og Bandaríkin höfum við ekki sömu upplýsingahagsmuni. Ástæðan er sú að íslenska ríkið hefur hvorki burði né hagsmuni af því að stunda til dæmis þær njósnir sem Bandaríkin stunda. Það þýðir að Bandaríkin leyfa sér ýmsa hegðun sem við mundum aldrei leyfa okkur og mundum aldrei sjá ástæðu til. Það er þess vegna sem upplýsingahagsmunir okkar eru ekki endilega þeir sömu og Bandaríkjanna, jafnvel þótt almennir öryggishagsmunir séu þó næstum því eða algerlega hinir sömu að öðru leyti, jafnvel þó svo væri.

Mér þykir alltaf mikilvægt, þegar við ræðum þjóðaröryggismál, að við höldum þessu til haga. Það eru fleiri ógnir en bara hryðjuverk og stríð sem steðja að okkur. Það er líka í gangi nú til dags, því miður, ákveðinn uppgangur valdhyggjuafla. Því miður. Þau eru öryggisógn. Uppgangur þeirra er öryggisógn. Það er þess vegna sem réttarríkið og lýðræðið sjálft þurfa að vera hluti af öryggisstefnu. Ég fæ ekki betur séð en að svo sé hér. Sem er afskaplega mikilvægt. Það er í 5. lið tillögunnar, með leyfi forseta:

„Að tryggja víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála, afvopnun, virðingu fyrir mannréttindum og réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og baráttu gegn ójöfnuði, hungri og fátækt að leiðarljósi.“

Það eru akkúrat svona hlutir sem er mikilvægt að hafa í öryggisstefnu. Öryggi snýst ekki bara um að bjarga mannslífum. Það snýst líka um að bjarga gildum á borð við lýðræði og frelsi frá þeim öflum sem vilja skemma það, hvort sem það eru hryðjuverkamenn, valdhyggjumenn eða vel meinandi fólk að bregðast við aðstæðum með röngum hætti.

Ég kem til með að styðja þetta mál og fagna því að þetta mikilvæga mál sé til umræðu í þessu góða landi okkar með opinskáum hætti og sömuleiðis það að við búum í landi sem hefur hvorki hagsmunina né burðina til þess að þetta fari með okkur út í gönur. Mér finnst þó mikilvægt að við höfum alltaf í huga, þegar við höldum áfram, að öryggi getur ekki bara snúist um líf og limi, það þarf líka að snúast um borgararéttindi, frelsi og lýðræði.