145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

túlkun reglna um hagsmunaskráningu þingmanna.

[15:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í ljósi pólitískrar stöðu og þess ástands sem varir á Íslandi tel ég rétt að óska eftir svörum hæstv. forseta við tilteknum spurningum sem lúta að túlkun þingmanna á reglum um hvernig skrá skuli hagsmuni þingmanna.

Það liggur fyrir í samfélagsumræðunni, í fjölmiðlum og af hendi ýmissa ráðamanna hér, bæði forustufólki í ríkisstjórninni sjálfri og í þingflokkum stjórnarflokkanna, að skilningurinn er mismunandi.

Ég spyr hæstv. forseta hvernig hann hyggist bregðast við mismunandi túlkun þingmanna á reglum um það hvernig skrá skuli hagsmuni þingmanna.

Í öðru lagi hvort forseti telji að reglur hafi verið brotnar þegar fyrrverandi forsætisráðherra kaus að skrá ekki eignarhlut sinn í Wintris þegar hann var kosinn á þing 2009.

Í þriðja lagi hvort forseti telji að fjármálaráðherra hafi brotið reglur þegar hann skráði ekki eignarhlut sinn í Falson, en hann hefur gegnt þingmennsku eins og kunnugt er frá árinu 2003.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna