145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

túlkun reglna um hagsmunaskráningu þingmanna.

[15:12]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill aðeins út af þessu segja að það er út af fyrir sig alveg rétt að það er ekki gott að það sé einhver óvissa um störf þingsins. Forseti hefur reynt að leggja sitt af mörkum varðandi þá dagskrá sem var sett fram bæði í gær og í dag í því skyni að við gætum að minnsta kosti haldið áfram að ræða mál sem í fyrsta lagi eru mál sem kallað hefur verið eftir og forseti telur ástæðu til að ætla að geti orðið samstaða um og í öðru lagi þau mál sem nefndir hafa viljað flytja, þá sameiginlega, eða mál sem hafa verið afgreidd sameiginlega út úr þingnefndum.

Með þessu leggur forseti þá fyrst og fremst áherslu á að þau mál séu á dagskrá núna sem hann telur að geti orðið samstaða um eða hefur verið kallað eftir með einum eða öðrum hætti.