145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

störf þingsins.

[15:42]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að reifa neitt sem viðkemur síðustu viku heldur ætla ég að fjalla um allt annað. Þann 9. apríl síðastliðinn voru samstöðumótmæli fyrir utan pólska sendiráðið. Fólk kom með vírherðatré og bjó til úr því skúlptúr. Ástæðan fyrir því var að verið er að mótmæla því að í Póllandi er fyrirhugað allsherjarbann gegn fóstureyðingum. Nú þegar þrengir mjög að rétti kvenna þegar kemur að því að sækja sér þessa oft nauðsynlegu læknisaðstoð. Nú á að leggja blátt bann við því að konur geti sótt sér þessa nauðsynlegu læknisaðstoð þegar þær þurfa. Aðgengi að fóstureyðingum er spurning um líf og dauða kvenna alls staðar að í heiminum. Ástæðan fyrir því að allir komu með vírherðatré var sú að vírherðatré er algengasta leiðin til þess að framkvæma fósturlát þar sem fóstureyðingar eru bannaðar.

Mig langar til þess að nota tækifærið og biðla til þingheims, ekki síst þingkvenna, um að hjálpa mér að reyna að finna út einhverja leið til þess að vekja athygli pólska þingsins á því hvers lags mannréttindabrot það mun fremja ef löggjöfin verður að veruleika. Ég held og ég trúi því að það sé okkar hlutverk, í heimi sem virðir mannréttindi og kvenréttindi, að standa vörð um það. Ég biðla til þingheims um að hjálpa mér til að finna leið til þess að gagnrýna það hvernig pólsk stjórnvöld ætla að taka fram fyrir hendur á sjálfsákvörðunarrétti kvenna þar í landi.


Efnisorð er vísa í ræðuna