145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

störf þingsins.

[15:46]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Enn einu sinni eru málefni framhaldsskólanna í uppnámi hjá hæstv. ráðherra Illuga Gunnarssyni. Skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri hefur stigið fram og sagt frá stöðu skólans sem er grafalvarleg. Verkmenntaskólinn á Akureyri hefur, eins og margir aðrir framhaldsskólar, glímt við erfiðan rekstur og virðast allflestir framhaldsskólar deila við ráðuneytið um útreikning vegna launabóta í tengslum við kjarasamninga. Ef ríkið semur um launahækkanir þurfa stofnanir að fá viðeigandi fjármagn til að geta greitt umsamdar hækkanir, það er alveg morgunljóst.

Verkmenntaskólinn á Akureyri stendur frammi fyrir því að vera með uppsafnaðan halla frá árinu 2014–2015. Án þess að fá nokkrar aðvaranir er þeim nú gert að borga upp hallann áður en ráðuneytið greiðir skólanum rekstrarframlag. Það þýðir að skólinn safnar dráttarvöxtum en skilaboð ráðuneytisins voru að króna verði ekki greidd í rekstrarfé fyrr en í sumar. Er hægt að halda uppi skólastarfi ef ekki er hægt að greiða rafmagn og hita eða ef tækjabúnaðurinn er orðinn algerlega úreltur? Því verður ráðherrann að svara og ekki bara að svara, hann verður að grípa til aðgerða.

Það er mjög bagalegt eins og virðist því miður oft vera, og við höfum talað um hér áður, að ítrekað er reynt að fá samtal við fulltrúa ráðuneytisins en því er bara ekki ansað. Hvers lags framkoma er það, bæði við nemendur og starfsfólk framhaldsskólanna? Næstkomandi haust ætluðu framhaldsskólarnir fimm á Norðurlandi, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Framhaldsskólinn á Laugum og Framhaldsskólinn á Húsavík, að hefja víðtækt samstarf sem nú er í uppnámi. Hluti af því var að Menntaskólinn á Akureyri mundi færa sitt skólaár til samræmis við hina fjóra en það verður ekki gert næsta haust vegna þess að ríkið er ekki tilbúið til að veita skólanum þá viðbótarfjármuni sem þarf til að geta farið í þessar breytingar.

Í lokin er vert að minnast þess að ráðherrann, sem hefur mikið talað um brottfall nemenda, ætlar að redda því með því að stytta nám til stúdentsprófs eins og kunnugt er. Verkmenntaskólinn á Akureyri brást hins vegar skynsamlega við með því að bjóða upp á sálfræðiþjónustu sem hefur svo sannarlega skilað sér margfalt (Forseti hringir.) en hana þarf jú að skera niður núna. Á hverjum bitnar það fjársvelti skólanna yfirleitt? Jú, auðvitað á nemendum. Ráðherrann þarf að gyrða sig í brók og sjá til þess að skólarnir fái það fjármagn sem þeir þurfa og verði starfhæfir.


Efnisorð er vísa í ræðuna