145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

störf þingsins.

[16:01]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar í ljósi umræðna áðan um setu hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar á kvennaþingi Sameinuðu þjóðanna að beina þeim tilmælum til forseta þingsins að nú, þegar gengið verður til fjárhagsáætlunar fyrir þingið, geri forseti þingsins ráð fyrir því að héðan frá Alþingi fari ein kona úr hverjum stjórnmálaflokki sem sæti á á Alþingi á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (Gripið fram í.) og að fjárhagsáætlun Alþingis taki mið af því.

Þetta er kvennaráðstefna, hv. karlþingmenn, og þar af leiðandi er ég að tala fyrir hönd kvenna. Ég skora á hæstv. forseta að taka þá beiðni sem fram kom á þingflokksformannafundi ekki alls fyrir löngu og skoða með hvaða hætti hægt sé að tryggja að svo verði. Ísland hefur löngum státað af því að standa framarlega í kvenfrelsisbaráttu og jafnréttisbaráttu allri og það hljómar hálfhjákátlega að við skulum ekki sem Alþingi Íslendinga senda þangað kvenfulltrúa.

Þetta voru mín orð, hæstv. forseti, í þessari umræðu um störf þingsins vegna þess að mér finnst þetta heyra undir þingið og við eigum að sammælast um að svo geti farið.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna