145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[16:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta er sögulegt augnablik á Alþingi. Hér er verið að samþykkja fyrstu þjóðaröryggisstefnuna í sögu lýðveldisins Íslands. Það hefur tekið þrjú ár að vinna hana. Sú vinna hefur farið fram með frábærum hætti í alla staði. Þrír utanríkisráðherrar hafa komið að málinu. Einn lagði stefnuna fram, annar hjó á mikilvægan hnút sem á málið kom og það mun koma í hlut þess þriðja að leggja fram frumvarp sem hrindir stefnunni til framkvæmdar.

Það sem skiptir kannski mestu máli er að það skapaðist mesta hugsanlega sátt um málið miðað við hina pólitísku stöðu. Auðvitað gera einstaka flokkar verulegan ágreining um tiltekna þætti, en eigi að síður er málið lagt fram með stuðningi fulltrúa allra flokka í utanríkismálanefnd. Þetta er til marks um það hvernig Alþingi getur unnið erfið verkefni og (Forseti hringir.) staðið saman og með málefnalegum hætti að niðurstöðunni.