145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[16:09]
Horfa

Hanna Birna Kristjánsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil líkt og þeir hv. þingmenn sem hafa talað á undan fagna því að við séum komin á þann stað að vera að samþykkja í fyrsta sinn þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Það er mikilvægt og stórt skref. Eins og nefnt var á undan mér skiptir miklu máli hvernig það hefur verið unnið. Ég vil þess vegna nota tækifærið og fá að þakka hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, núverandi hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, fyrir hvernig hann hefur haldið á málinu og hélt á því, og núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fyrrverandi utanríkisráðherra, fyrir hvernig þeir hafa leitt málið fram og ekki síður hv. utanríkismálanefnd og félögum mínum þar, en þar tókst eftir talsverða vinnu, bæði á þessu þingi og þinginu á undan, að leiða þetta mál þannig að nefndarálitið er flutt af fulltrúum allra flokka þrátt fyrir að það greini auðvitað afstöðumun hjá flokkum þegar kemur að stórum grundvallarspurningum. Það er ekkert nema eðlilegt.

Ég tek undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni þegar hann sagði: Svona er hægt að vinna mál þegar menn leggja sig fram við það. Þetta er risastórt og rammpólitískt mál sem Alþingi er að klára hér með miklum sóma.