145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[16:10]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði styðjum þær breytingartillögur sem hv. utanríkismálanefnd leggur til, enda eru þær allar til þess fallnar að þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland sé byggð á víðum grunni og horfi til margra og ólíkra þátta sem stefnt geti öryggi þjóðar í hættu, svo sem náttúruvár, farsótta og fæðuöryggis.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur þó frá upphafi vinnu að þjóðaröryggisstefnu haldið þeirri stefnu hreyfingarinnar til haga að við teljum öryggi Íslands best borgið utan allra hernaðarbandalaga og að varnarsamningnum við Bandaríkin verði sagt upp. Hreyfingin getur því ekki stutt ákvæði í þjóðaröryggisstefnu sem ganga í aðra átt en það og af þeim sökum munum við sitja hjá við lokaafgreiðslu málsins. En við styðjum eins og ég segi þær góðu breytingartillögur sem nefndin leggur til í sínu nafni.