145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[16:41]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því að hér er verið að gera ýmsar lagabreytingar, m.a. á lögum sem voru samþykkt 2015 sem gátu ekki tekið gildi út af einhverjum öðrum lögum 2011. En ég ætla ekki að spyrja um það. Hér er líka verið að gera breytingar á virðisaukaskatti varðandi fólksflutninga og áfengisgjaldi. Þessi þrjú atriði benda til þess, virðulegi forseti, að vinna við þessar breytingar á sínum tíma hafi ekki verið nógu góð og það hafi verið einhverjar gloppur í þeim lögum sem við höfum sett. Það harma ég mjög.

Spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra við flutning frumvarpsins snýr að þessu: Hér er boðuð lækkun tryggingagjalds sem ég held að allir séu sammála um og var m.a. lofað við gerð kjarasamninga og annað slíkt. Hér hefur verið sett fram hvernig tryggingagjald var hækkað við efnahagshrunið m.a. til að fjármagna atvinnuleysisbætur o.s.frv. En ég tók eftir því, virðulegi forseti, að hér er boðað að breyta lögum sem heimila hjónum og sambýlisfólki samsköttun milli tveggja skattþrepa frá 1. janúar 2017 og áhrif á tekjur ríkissjóðs eru jákvæð um 3 milljarða kr. Ef ég skil þetta rétt eru þetta tekjur upp á 3 milljarða. Þá er spurningin þessi: Er verið að fjármagna lækkun tryggingagjalds með því að hækka skatta á þá einstaklinga sem njóta þess í skattalögum í dag?