145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[16:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, það er ekki verið að fjármagna lækkun tryggingagjaldsins með því að breyta lögum sem gilda í dag. Hér var um að ræða breytingu sem var afgreidd á Alþingi fyrir síðustu jól og átti að taka gildi í upphafi næsta árs. Hún hefur aldrei komið til framkvæmda en hún hefði eins og ég rakti í máli mínu haft áhrif á tekjur ríkissjóðs til lækkunar á árinu 2018. Þeir sem falla undir þessa lagabreytingu, þeir sem hefðu kannski einkum getað nýtt sér að þá hefði verið hægt að færa milli skattþrepa með þeim hætti sem kveðið var á um, eru þeir sem eru í efsta þrepinu í dag og verða þá í efra þrepinu þegar breyting á skattþrepum verður komin að fullu til framkvæmda næstu áramót. Það má segja að þetta hefði verið skattalækkun sem einkum hefði nýst efri millitekjuhópi og þeim sem eru með hærri tekjurnar.

Það sem við erum að gera hér er að segja að það geti ekki verið í forgangi núna að klára þetta mál, heldur verði svona breytingar að fá frekari skoðun. Til að ná markmiðum okkar í ríkisfjármálum um heildarafkomu og tekjuþróun ríkisins setjum við þetta aftar í forgangsröðina og hættum við þessa breytingu sem ekki er enn komin til framkvæmda en leggjum þeim mun meiri áherslu á tryggingagjaldið.