145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti.

668. mál
[17:20]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir þetta frumvarp sem ég held að sé gríðarlega mikið framfaraskref fyrir íslenskt atvinnulíf og nýsköpun í landinu. Hér eru nokkur ákvæði sem eru ákaflega mikilvæg og ég fagna þeim öllum, ekki síst held ég að muni skipta miklu máli hækkun á þakinu varðandi frádráttarbæran rannsóknar- og þróunarkostnað. Ég hefði viljað spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í tvennt, í fyrsta lagi afslátt frá skatti vegna fjárfestingar í hlutabréfum. Þetta eru gríðarlega mörg skilyrði og sum vekja spurningar, sem væntanlega munu skýrast í meðförum nefndarinnar, eins og t.d. sjöunda skilyrðið, að félagið eigi ekki í fjárhagsvanda. Hvað er félag í fjárhagsvanda? Það getur verið óljóst, sérstaklega á þessu sviði. Ég hef komið að rekstri nýsköpunarfyrirtækja sem voru öll í fjárhagsvanda fyrstu tíu árin en eru samt orðin stærstu og mikilvægustu fyrirtæki landsins. Það væri sorglegt ef þetta yrði túlkað þannig að slík fyrirtæki mættu ekki afla sér hlutafjár undir þessum merkjum.

Einnig er sagt í fimmta skilyrði að ekki megi gera þetta eftir að fjögur ár eru liðin frá fyrstu sölu félagsins. Ég held að það sé eitthvað á misskilningi byggt. Hugsanlega er þetta einhver krafa frá Evrópusambandinu. Eins og oft eru lögin þar samin að stórfyrirtækjum en ekki litlum sprotafyrirtækjum. En ég mundi halda að það væri ekki góður hvati í þessu ákvæði. Hvað er átt með skráningu á hlutabréfamarkaði? Er það líka markaður fyrirtækja af aðallista? Er það líka um hinn markaðinn sem er fyrir smærri fyrirtæki?

Svo hefði ég viljað koma upp í seinna andsvari og ræða aðeins um skattafslætti til sérfræðinga, en læt þetta duga í bili.