145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti.

668. mál
[17:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir að það skiptir verulega miklu máli að skilyrðin séu skýr og það verði ekki skilið eftir mjög mikið rými til þess að túlka þau til eða frá þannig að það geti komið í bakið á fólki, eða að löggjöfin teljist einfaldlega ekki nægilega skýr. Þetta atriði sem snýr að félögum í fjárhagsvanda er augljóslega sett fram vegna félaga sem eru í slíkum fjárhagsvanda að þau virðast ekki eiga sér viðreisnar von og sú hlutafjárhækkun sem fyrirhuguð er sé einhver vanhugsuð björgunaraðgerð sem engar líkur eru á að komi félaginu á réttan kjöl. Ég nefni þetta sem dæmi en reynsla hv. þingmanns mun vafalítið gagnast mjög við að rýna skilyrði af þessum toga. Sama á við í raun og veru um skilyrði sem þarna var vísað til. Varðandi skráninguna er væntanlega verið að vísa til þess að menn nýti sér ekki skattafslátt skömmu fyrir augljósa skráningarmöguleika vegna þess að félög sem eru skammt frá því að fá skráningu eru kannski ekki eins líkleg til að þurfa innspýtingu af þeim toga sem við ræðum hér.

Ég vek aftur athygli á því að við erum að tala um að skattafslátturinn getur ekki tekið til minni fjárfestingar en 500 þús. kr., en að hámarki nýtist skattafslátturinn vegna 10 milljóna. Svo verður líka að horfa á þetta út frá því sjónarhorni að þetta eru þegar upp er staðið tilraunir til að skilja stóru sterku félögin frá. Þar er dálítið vandasamt að miða bara við starfsmannafjöldann vegna þess, eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, að allur meginþorri, (Forseti hringir.) yfirgnæfandi fjöldi fyrirtækja á Íslandi er með fáa starfsmenn.