145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti.

668. mál
[17:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru allt atriði sem ég vænti að menn fari vandlega yfir. Þetta eru að sjálfsögðu alltaf matsatriði. Þetta með 10 milljónirnar reiknast svona eins og hv. þingmaður segir, 30% af því eru 3 milljónir. Það er þá um þær 3 milljónir sem skattstofninn lækkar og eiginleg skattalækkun er þá prósentan af 3 milljónunum. Hefði átt að miða við hærri prósentu og lægri heildarfjárhæðir? Mér finnst þetta nú ekki komið í sjálfu sér upp í neinar risafjárhæðir þó að það sé rétt sem hv. þingmaður segir að ekki hafa allir 10 milljónir til fjárfestinga, en þá er alveg hægt að benda á að það er farið alveg niður í hálfa milljón sem er eins og ein meðallaun á Íslandi, mánaðarmeðallaun. Það var reynt að horfa til þess að það væri ágætt jafnvægi í þessu.

Varðandi erlendu sérfræðingana höfum við fundið fyrir því að margt hefur skort í umgjörð fyrir alþjóðlega fyrirtækjastarfsemi á Íslandi. Ég lít þannig á að þetta sé bara eitt púsl í stærri mynd sem við þurfum að klára. Ég nefni sem dæmi: Við þurfum að leggja meiri áherslu á að hér byggist upp alþjóðlegir skólar fyrir börn starfsfólks sendiráða og annarra alþjóðlegra starfsmanna sem koma til landsins. Það er einn hluti þeirrar heildarmyndar sem verður að vera í lagi. Varðandi það hversu sanngjarnt eða ekki sanngjarnt þetta er, þá finnst mér skynsamlegt af okkur að hlusta eftir því sem kallað er eftir á þessu sviði og horfa til fordæma sem reynst hafa vel annars staðar og láta á það reyna. Það mun þá bara koma í ljós hversu mikið ákvæðið verður nýtt. Ef við sjáum að það muni skila miklum árangri þá munum við fá þau skilaboð frá atvinnulífinu. Ef ákvæðið skilar ekki árangri til lengri tíma litið, virðist ekki vera það sem þurfti til þess að auka fjölbreytnina í sérfræðiþekkingu á Íslandi, þá dagar það einfaldlega uppi. (Forseti hringir.) En mér finnst engin ástæða til að slá það út af borðinu. Þetta er eitt af þeim atriðum sem menn kalla eftir að verði lagað til að gera Ísland (Forseti hringir.) að betri stað fyrir alþjóðlega starfsemi.