145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

skattundanskot alþjóðlegra stórfyrirtækja.

[10:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Forseti. Alþjóðlegt samstarf á þessu sviði hefur einkum beinst að tveimur til þremur atriðum. Í fyrsta lagi að uppræta peningaþvætti og í öðru lagi að uppræta leyndina, svikin. Þegar menn skjóta sér undan eðlilegri skattlagningu heima fyrir með því að nýta sér leyndina á umræddum svæðum í þeim tilgangi að þurfa ekki eða komast upp með að gefa ekki upp eignarhald, tekjur, skuldir, hvað eina sem varðar rekstur.

Þess vegna hafa menn notað upplýsingaskiptasamningana sem við Íslendingar höfum verið virkir þátttakendur í að gera með vísan til OECD-staðalsins, sem við erum ein af fyrstu þjóðunum til að innleiða, og þessa Norðurlandasamstarfs sem hefur getið af sér 44 upplýsingaskiptasamninga. Við höfum svo sannarlega gert meira en flestir aðrir á því sviðinu.

Hérna skiptir líka máli hvaða hugtök við notum og hvernig við förum með þau. Þegar menn tala um skattundanskot erum við þá sammála um að við séum að tala um þá sem svíkja undan skatti? Eða erum við að tala um þá sem sækja á lágskattasvæði í þeim tilgangi að lágmarka skattgreiðslur sínar? Hvort erum við að tala um þegar notað er hugtakið skattundanskot eða jafnvel skattsniðganga í þessum sal?

Í mínum huga erum við að tala um þá sem með réttu eiga að greiða skatta hér en gera það ekki, nýta sér skjól slíkra félaga, slíkra aflandssvæða, til þess að gera það ekki. Þetta eru skattsvikararnir sem öll vinnan snýst um að ná í skottið á, draga hingað heim og láta þá svara fyrir það sem þeir hafa gert.

Varðandi fjárfestingarsamningana vil ég vekja athygli á einu. Nú nefna menn til sögunnar alþjóðleg stórfyrirtæki sem hafa starfsemi hér og nýta sér mögulega svæði af þessum toga til að lágmarka skattgreiðslur sínar eða eftir atvikum mögulega að fara á svig við reglur, við skulum ekki útiloka neitt í þeim efnum. En þá skulum við líka hafa í huga að við höfum fengið mörg þessara fyrirtækja til Íslands og með hverju? Með því að fella þau undan skattskyldu. Nú síðast í tíð síðustu ríkisstjórnar. Fyrirtæki á Bakka munu aldrei þurfa að borga tryggingagjald.