145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

fjárhagsstaða framhaldsskólanna.

[10:48]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar til þess að ræða við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um stöðu framhaldsskólanna. Við höfum tekið samtal um þá áður og ætti ekki að koma honum á óvart í ljósi þeirra fregna sem birtast okkur á samfélagsmiðlum og í blöðum að skólameistarar sjá sér ekki annað fært en að tjá sig opinberlega um stöðu skólanna. Það er svo komið að ansi margir skólar, um það bil helmingur framhaldsskóla landsins, treysta sér ekki til þess að reka skólana miðað við þær fjárveitingar sem til þeirra eru greiddar, ef þær eru þá greiddar, sem málið hér snýst kannski einmitt um. Það hefur komið fram hjá formanni Skólameistarafélags Íslands og hjá skólameistara Verkmenntaskólans á Akureyri að ekki séu til peningar fyrir hefðbundnum rekstri, það séu vanskil við birgja síðan um áramót og ástæðan sé sú að uppsafnaður halli fyrri ára verði að greiðast upp áður en hægt sé að greiða út rekstrarfé til skólanna, þ.e. fyrir utan launin.

Ég verð því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji þetta ásættanlegt. Finnst honum þau viðbrögð sem ráðuneyti hans hefur sýnt þessum skólum í lagi? Það kemur fram í máli þessa fólks að það hafi ekki fengið samtal við ráðuneytið til að fara yfir málin. Það hafi ekki fengið tilkynningar um að til stæði að gera þetta með þessum hætti. Búið sé að sýna fram á hvernig hægt sé að vera innan rammans eins og formaður Skólameistarafélagsins og skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík taka fram en það geti ekki gerst með þeim hætti sem ráðuneytið leggi til. Við vitum jú að ekki er hægt að skera meira niður í framhaldsskólum landsins.

Það hefur líka komið fram að ársnemendur virðast vera reiknaðir mismunandi út miðað við þó sambærilega skóla. Það hefur ekki fengist skýring á því frá ráðuneytinu að sögn skólameistara. Mig langar til að spyrja (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra hvort hann ætli að sjá til þess (Forseti hringir.) að þessu verði svarað og skólarnir fái viðunandi starfsskilyrði.