145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

fjárhagsstaða framhaldsskólanna.

[10:51]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þeir skólar sem hér um ræðir og eru í greiðsluvanda vegna uppsafnaðs halla eru samkvæmt okkar skoðun fimm skólar. Það hefur komið fram í opinberri umræðu hvaða skóla er um að ræða. Ég er sammála fyrirspyrjanda í því að við getum ekki látið þá stöðu standa að skólar sem eru með þennan halla séu algjörlega settir á ís hvað varðar fjárframlögin. Það býr bara til aukinn vanda, það leysir engan vanda að gera það svona. Aftur á móti er gerð krafa á skólana eins og aðrar ríkisstofnanir með halla að gerð sé áætlun, hún þarf að vera tímasett, til að hægt sé að vinna á þeim halla sem myndast.

Ég hef átt, virðulegi forseti, fundi með fjármálaráðherra, nú síðast í morgun, þar sem við fórum yfir þessi mál. Ég get sagt það í tilefni þessarar fyrirspurnar að sérstaklega verður litið til framkvæmda á reglunum og hvernig staðið er að því gagnvart þessum skólum með það að sjónarmiði að reyna að finna betri leiðir til þess að gera skólunum kleift að greiða niður þann halla sem þeir standa frammi fyrir án þess að slík staða myndist eins og hér hefur verið gerð að umtalsefni.

Af því að hér var sérstaklega spurt um fundi með skólastjórnendum þá vil ég upplýsa að ég átti fyrir skömmu fund með skólameistara Kvennaskólans í Reykjavík þar sem einmitt þessi mál voru sérstaklega rædd. Það eru reglubundnir fundir ráðuneytisins með öllum skólameisturum. Þessi mál hafa auðvitað borist til okkar og við höfum sest yfir þau. Við höfum líka verið að reyna að greina þróunina í skólakerfinu, hvort það sé eitthvað sérstakt þar á ferðinni sem við þurfum að taka tillit til. En við sjáum með þá fimm skóla sem við ræðum hér að þessi staða er uppi. Það er halli og það hefur verið gengið þannig á skólana (Forseti hringir.) að meðan hallinn er eru ekki greidd fjárframlög. Það þarf að (Forseti hringir.) skoða það því að augljóslega (Forseti hringir.) er það ekki lausn á vandanum að nálgast hann með þeim hætti.