145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

fjárlagagerð fyrir árið 2017.

[10:56]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Eftir undanfarna viku, sem við erum öll sammála um að var heldur furðuleg, er margt í lausu lofti enn þá.

Sér í lagi langar mig að fá að vita hvernig hæstv. fjármálaráðherra sér fyrir sér að fjárlög fyrir árið 2017 muni eiga sér stað.

Við erum náttúrlega á fyrsta ári eða fyrsta fasanum í því að fara í gegnum opinber fjármál sem á að auka þátttöku þingsins við gerð fjárlaga. Hins vegar hefur borið á vangaveltum í umræðunni um að jafnvel leggja fram fjárlögin fyrir lok þessa þings, þ.e. 145. þings.

Ég held að þingheimur allur og þjóðin þurfi eiginlega að fá að vita hverjar áætlanir hæstv. fjármálaráðherra eru þegar kemur að fjárlögum fyrir næsta ár. Það gengur ekki að við vitum í raun ekki hvernig við eigum að starfa, hvernig við eigum að undirbúa okkur.

Það gengur ekki að þetta þing samþykki fjárlög ef það verða síðan kosningar þar á eftir, einfaldlega af því að þetta á bæði að vera eitt helsta kosningabaráttumál og stefnumarkandi mál milli flokka. Mér þætti því mjög óeðlilegt ef fjármálaráðherra hygðist samþykkja fjárlög t.d. á sumarþingi eða eitthvað því um líkt.

Mig langar helst að fá upplýsingar frá hæstv. fjármálaráðherra um það hvað hann er að hugsa og hvernig hann sér fyrir sér framhaldið þegar kemur að fjárlagagerð fyrir árið 2017.