145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

fjárlagagerð fyrir árið 2017.

[10:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Auðvitað kemur ekki til greina að samþykkja á þessu þingi fjárlög fyrir næsta ár. Það er alveg augljóst.

Ég hef talað fyrir því að hér haldi hlutirnir áfram í sömu skorðum og þeir hafa verið. Það þýðir að menn undirbúa áfram fjárlagagerð eins og er verið að gera í öllum ráðuneytum. Ríkisstjórnir eru vanar að ljúka fjárlagagerðinni að uppistöðu til í júní. Við getum gert það í júní.

Það er ekki útilokað að á grundvelli þess og þeirrar vinnu verði lagt fram fjárlagafrumvarp í september. Það er ekki útilokað fyrst að spurt er svona. Við getum rætt það mál. Þá er tryggt að stjórnkerfið allt er tilbúið fyrir næsta fjárlagaár.

Eftir kosningar geta komið fram einhverjar nýjar áherslur hjá nýrri ríkisstjórn sem mundu þá birtast í því fjárlagafrumvarpi sem sú nýja ríkisstjórn mundi leggja fram. En með þessu erum við að tryggja að það sé einhver stjórnfesta á Íslandi þrátt fyrir að á fjögurra ára fresti, eða oftar eftir atvikum, þurfi að endurnýja umboð þingsins.

Svona gera aðrir þetta reglulega. Ef ég man rétt síðast Norðmenn sem kusu að hausti til. Fráfarandi ríkisstjórn lagði fram fjárlagafrumvarp. Svo var gengið til kosninga. Ný ríkisstjórn lagði fram fjárlagafrumvarp fyrir sitt leyti sem var reyndar í því tilviki nánast óbreytt.

Nú er ég aðeins að reyna að bregðast við fyrirspurn vegna þess að þetta virðist allt vera mjög óljóst fyrir hv. þingmanni. En það er rangt sem hún virðist halda, að ríkisstjórnin sé með áform um að samþykkja ný fjárlög fyrir árið 2017 í sumar eða snemma í haust.