145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[11:10]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999, með síðari breytingum, á þingskjali 1020.

Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 43/1999. Í stuttu máli eru efnisatriði frumvarpsins þríþætt. Í fyrsta lagi er lagt til að gildistími laganna verði framlengdur um fimm ár, þ.e. til ársloka 2021. Í öðru lagi er lagt til að hlutfall endurgreiðslu samkvæmt lögunum verði hækkað úr 20% í 25%. Í þriðja lagi er lagt til að stjórnsýsla vegna endurgreiðslukerfisins verði gerð skýrari og umsækjendum gefinn kostur á að kæra ákvarðanir til sjálfstæðrar nefndar um endurgreiðslur, annars vegar til yfirskattanefndar að því er varðar túlkun tekjuskattslaga um hvað teljist vera framleiðslukostnaður o.s.frv. og hins vegar til ráðuneytisins að því er aðra þætti varðar.

Áður en ég fer nánar í efnisatriði frumvarpsins vil ég aðeins greina frá forsögu málsins. Meginmarkmið laganna frá 1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, er að stuðla að eflingu innlendrar menningar og kynningar á sögu landsins og náttúru með tímabundnum stuðningi við kvikmyndir og sjónvarpsefni sem framleitt er hér á landi. Einnig er mikilvægt hlutverk laganna að efla þekkingu í innlendri kvikmyndagerð með samstarfi við erlent fagfólk. Með því að laða að erlenda kvikmyndagerðarmenn er unnt að þjálfa íslenskt fagfólk til sjálfstæðra verka á þessu sviði og bæta tækjakost kvikmyndaiðnaðarins hér á landi. Margt af þessu hefur gengið eftir. Á árinu 2015 má segja að velgengni íslenskra kvikmynda hafi náð nýjum hæðum og myndir eins og Hrútar, Fúsi, Hross í oss og Þrestir, svo einhverjar séu nefndar, hlutu verðlaun á erlendum kvikmyndahátíðum, en íslenskar kvikmyndir hlutu yfir 100 verðlaun á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum víðs vegar um heiminn á síðasta ári. Auk þess vakti tæknivinna sem unnin var hér á landi vegna stórmyndarinnar Everest mikla athygli.

Engu að síður býr þessi ungi iðnaður enn við erfið starfsskilyrði, m.a. vegna smæðar markaðar og takmarkaðs fjármagns til innlendrar kvikmyndagerðar. Endurgreiðslukerfi laganna hefur því verið ein meginstoðin í eflingu innlendrar kvikmyndagerðar og stuðlað að fjölgun verkefna og auknu umfangi sem síðan hefur leitt af sér fjölgun fagstarfa á ársgrundvelli. Mikilvægt er fyrir innlenda kvikmyndaframleiðslu að íslenskir kvikmyndagerðarmenn fái áfram tækifæri til að vinna með hæfasta fagfólki í heimi og öðlist þannig þjálfun sem ekki stendur nema að takmörkuðu leyti til boða hér á landi þar sem kvikmyndamenntun á háskólastigi er ekki til staðar. Það er mat kvikmyndagerðarfólks að samstarf við slíkt fagfólk sé ein af undirstöðum þess drifkrafts sem nú er í íslenskri kvikmyndagerð.

Núgildandi lög falla úr gildi í árslok 2016 og voru þau síðast framlengd árið 2012. Endurgreiðsluhlutfall laganna var upphaflega 12% en hækkaði í 14% árið 2006 og í 20% árið 2009. Samantekið hafa á grundvelli laganna ríflega 5,6 milljarðar króna verið greiddir úr ríkissjóði til framleiðenda. Af þessum 5,6 milljörðum hafa 55% farið til íslenskra verkefna og 45% til erlendra verkefna. Á sama tíma hefur mikil veltuaukning átt sér stað í greininni. Í nýlegri skýrslu Capacents um stöðu kvikmyndaiðnaðar kemur fram að heildarumsvif greinarinnar hafi aukist um rúm 37% frá árinu 2009 til ársins 2014 en þá voru þau alls 34,5 milljarðar króna en 15,5 milljarðar ef einungis er litið til framleiðslu á kvikmyndum og sjónvarpsefni. Í skýrslu Capacents kemur einnig fram að skatttekjur vegna umsvifa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðinum séu 7,3 milljarðar en 12 milljarðar alls ef áhrif iðnaðarins á komu ferðamanna hingað til lands eru tekin með. Er það mat Capacents að framlög ríkisins til greinarinnar, þar með talið til RÚV, Kvikmyndasjóðs og endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar, séu helmingi lægri en þær skatttekjur sem ríkið fær á móti frá greininni, að hver króna skili sér því tvöfalt til baka.

Í desember á síðasta ári lagði ég fram á Alþingi skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands var fengin til að vinna um hagræn áhrif kvikmyndagerðar á Íslandi með sérstakri áherslu á svæðisbundin áhrif. Þar kemur fram að umfang greinarinnar hefur aukist gríðarlega og hefur aukningin orðið einna mest hvað varðar erlend kvikmyndaverkefni. Í skýrslunni kemur fram að árið 2013 nam framleiðslukostnaður kvikmynda rúmum 15 milljörðum króna samkvæmt þjóðhagsreikningum, virðisauki kvikmyndaframleiðslu var um 2,6 milljarðar og þar af fóru um 1,9 milljarðar króna í laun. Það er um 0,2% af heildarverðmætasköpun allra atvinnugreina í landinu.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar kemur fram að ekki sé auðvelt að meta heildarfjölda ársverka í kvikmyndagerð á Íslandi en að teknu tilliti til afleiddra starfa megi ætla að ríflega þúsund einstaklingar vinni árlega við og í tengslum við kvikmyndaverkefni sem njóti endurgreiðslu. Í skýrslunni kemur einnig fram að um efnahagsleg áhrif styrkja til kvikmyndagerðar skiptir öllu máli hvort og hvernig tekið er tillit til afleiddra áhrifa. Engu að síður sé óumdeilt að styrkir til kvikmyndagerðar efli þann iðnað til vaxtar og þroska.

Hæstv. forseti. Af framansögðu má ráða að endurgreiðslukerfið sem komið var á fót árið 1999 hefur verið ein meginstoðin í eflingu innlendrar kvikmyndagerðar og stuðlað að fjölgun verkefna og auknu umfangi sem síðan hefur leitt af sér fjölgun fagstarfa á ársgrundvelli. Í ljósi umfangs og þýðingar kvikmyndagerðar fyrir íslenskt efnahagslíf, samanber framangreindar skýrslur Capacents og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um hagræn áhrif kvikmyndagerðar, er því með frumvarpi því sem ég mæli fyrir lagt til að áfram verði veittar tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar hér á landi til ársloka 2021.

Eins og ég greindi frá í upphafi er í annan stað í frumvarpinu lagt til að hlutfall endurgreiðslu verði hækkað úr 20% í 25%. Staðreyndin er sú að töluverð samkeppni er á milli landa, fylkja og borga um allan heim um að fá erlenda framleiðendur til að taka upp kvikmyndir, sjónvarpsefni og fleira myndefni, svo sem auglýsingar og tónlistarmyndbönd. Fyrir þessu eru nokkrar ástæður en þær helstu eru að verkefni af þessum toga eru atvinnuskapandi, gjaldeyrisskapandi og landið öðlast kynningu erlendis sem getur skilað sér í jákvæðri ímynd og auknum tekjum af ferðamönnum ef vel tekst til. Helstu samkeppnislönd Íslands á þessu sviði eru þau lönd sem bjóða upp á svipaðar aðstæður og finnast hér á landi, þá helst snjó, jökla, fossa, svartan sand og mikla víðáttu án þess að mannvirki séu í bakgrunni. Fleiri atriði hafa þó áhrif eins og endurgreiðslukerfi viðkomandi lands sem og verð og framboð á aðföngum og þjónustu. Helsta ástæða fyrir því að með frumvarpinu er lagt til að hlutfall endurgreiðslu verði hækkað úr 20% í 25% er að tryggja að Ísland verði áfram samkeppnishæft sem tökustaður erlendra kvikmynda til að mæta þeirri vaxandi samkeppni sem er um þennan iðnað á alþjóðavettvangi. Nefna má að í janúar 2016 tóku gildi lög um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar í Noregi þar sem hlutfall endurgreiðslunnar er einmitt 25%. Við gerð frumvarpsins voru, auk norsku laganna, skoðaðar reglur um endurgreiðslur í öðrum löndum, m.a. í Bretlandi, Tékklandi, Nýja-Sjálandi og Ítalíu.

Með hliðsjón af reynslu við framkvæmd laganna undanfarin ár og með vísan til þess að um vaxandi málaflokk er að ræða er með frumvarpinu sem ég mæli fyrir í þriðja lagi lagt til að sjálfstæð nefnd hefði umsjón með endurgreiðslunum. Jafnframt er skýrt kveðið á um kæruleiðir. Er það lagt til í anda góðrar stjórnsýslu, til einföldunar og meðal annars í samræmi við ábendingar frá Ríkisendurskoðun. Nefna má að álitamál hafa komið upp um túlkun á því hvað teljist til framleiðslukostnaðar í skilningi tekjuskattslaga og er talið eðlilegt að slíkum ágreiningi sé beint til yfirskattanefndar þar sem til staðar er sérfræðiþekking til að leysa úr slíkum málum. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu felur endurgreiðslukerfi laganna í sér ríkisaðstoð í skilningi samningsins um evrópska efnahagssvæðið sem háð er samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, og ESA hefur áður samþykkt lög nr. 43/1999 og síðari breytingar á þeim. Því ber að tilkynna ESA um frumvarpið og er gildistaka þess, verði það að lögum, háð samþykki ESA.

Að lokum ber þess að geta að við gerð frumvarpsins var haft samráð við Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Félag kvikmyndagerðarmanna, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Íslandsstofu og fjármála- og efnahagsráðuneytið. Lít ég svo á að almenn samstaða og einhugur sé innan kvikmyndageirans um efnisatriði frumvarpsins og að með því séum við að stíga heillarík spor bæði í efnahagslegu og menningarlegu tilliti og styðja við frekari framþróun íslensks kvikmyndaiðnaðar með tilheyrandi jákvæðum hliðaráhrifum.

Herra forseti. Að því sögðu legg ég til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.