145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[11:22]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég þekki afstöðu hennar til þessara mála og er í grundvallaratriðum sammála þeirri skoðun hv. þingmanns að auðvitað væri betra ef við værum með einfalt skattkerfi án allra undantekninga, lága skattprósentu og þar fram eftir götunum, við hv. þingmaður deilum þeirri hugmyndafræði. Í þessu tilfelli er það þó þannig að við erum kannski ekki enn þá, og ég og hv. þingmaður munum halda áfram að berjast fyrir því, komin á þann stað að skattkerfi okkar sé það samkeppnishæfasta. Þá er það þannig að þessar myndir verða búnar til, þessi störf verða til, tækifærin og tekjurnar, bara ekki hér. Það er það umhverfi sem við viljum tryggja að við getum búið ungum iðnaði hér á landi.

Varðandi það sem þingmaðurinn spyr um gagnsæið og hvað teljist til framleiðslukostnaðar vil ég í fyrsta lagi taka undir að ég held að gagnsæið í þessu sé af hinu góða. Það er einmitt þess vegna sem við birtum þessi verkefni. Það er alveg sjálfsagt að skoða hvernig við getum aukið það í framhaldinu.

Í lögunum segir: Með framleiðslukostnaði er átt við allan kostnað sem fellur til hér á landi og heimilt er að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Ólíkt ívilnanasamningunum sem hv. þingmaður nefndi, þar sem veittur er afsláttur af tilteknum skattstofnum, þá er hér verið að endurgreiða hlutfall kostnaðar af framleiðslukostnaði sem fellur undir íslensk tekjuskattslög. Ef upp koma álitamál um það, sem hafa komið, erum við, (Forseti hringir.) í þeim anda að bæta stjórnsýsluna, (Forseti hringir.) að færa það úrskurðarvald til yfirskattanefndar þar sem þekkingin og reynslan á því sviði er.