145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[11:37]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna orða hv. þingmanns þá er rétt kannski að árétta það að þetta mál snýst kannski um miklu meira en að styrkja íslenska kvikmyndagerð. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur sett sig inn í frumvarpið og lögin sem hér eru til umfjöllunar, en hér er um að ræða að framleiðendum kvikmynda, þeirra kvikmynda sem teknar eru og framleiddar hér á landi, er fengin heimild til þess að fá endurgreiðslu af heildarframleiðslukostnaði og núna er lagt til að hlutfallið verði 25%. Það er ekki um það að ræða endilega að verið sé að endurgreiða virðisaukaskatt sem hefur verið greiddur hér, nei, það hefur verið og er heimilað hér að endurgreiða hlutfall af heildarframleiðslukostnaði. Ég spurði sérstaklega hæstv. ráðherra um það áðan hvort hér væri undir t.d. hótelkostnaður. Ég vek athygli á því að virðisaukaskattur af hótelgistingu er 11% í dag, en þetta frumvarp heimilar 25% endurgreiðslu af reikningum er varða hótelgistingu.

Þess vegna spyr ég hv. þm. Helga Hrafn Bragason, (Gripið fram í: Gunnarsson.) Helga Hrafn Gunnarsson, hver afstaða hans er nákvæmlega til þessa. Þetta hefur ekkert verið með styrki til íslenskrar menningar út af fyrir sig að gera. Hér er verið að framleiða alls konar myndir, erlendar myndir, margar menningarlegar og fínar myndir, gerum það ekki að umræðuefni eða sérstakan þátt í þessu máli. Hefur hv. þingmaður enga skoðun á því hvort þetta sé það sem ríkissjóður og skattgreiðendur eigi að setja í forgang t.d. á tímum þegar ríkissjóður er skuldugur og kallað er eftir fé í afar brýn verkefni, t.d. á heilbrigðissviði? Er þetta eitt þeirra verkefna sem hv. þingmaður telur að eigi að vera í forgangi?