145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[11:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Forgangi miðað við hvað? Ríkið þarf auðvitað að standa að mjög mörgum verkefnum. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að hætta öllum verkefnum eða draga úr þeim ef þau eru ekki í einhverjum sérstökum forgangi. Mér þykir þetta kannski ekki í forgangi við hliðina á t.d. heilbrigðiskerfinu. Mér þykir mjög mikilvægt að auka fjárútlát í það. En það er hins vegar afgangur af ríkissjóði, ég ætla ekkert að fara út í hvers vegna það er, það er bara þannig, þess vegna þurfum við ekkert að mínu mati að fara að skuldsetja ríkissjóð meira til þess að taka þátt í þessum verkefnum. Eins og fyrr greinir þá er ég ekki þeirrar skoðunar að ríkið eigi einungis að taka þátt í forgangsverkefnum.

Hvað varðar framleiðsluna er rétt að þetta varðar ekki endilega kvikmyndir sem eru á íslenskri tungu, en hins vegar er mjög mikilvægt fyrir iðnað eins og kvikmyndagerðariðnaðinn og fleiri iðngreinar á Íslandi að það komi að erlend þekking. Þetta styður við það, sem sagt þekking og reynsla erlendra aðila.

Hér er lagt til að talan verði 25%, hún fer úr 20% og er að vísu framlengd. Ég er meðvitaður um það hvað frumvarpið snýst um ef hv. þingmaður er að velta því fyrir sér og er hlynntur því af ástæðum sem ég reifaði áðan, en það er líka alveg þess virði að líta á 1. gr. þeirra laga sem frumvarpið leggur til að verði breytt. 1. gr. er markmiðsklausa þeirra laga sem ég ætla að lesa hérna, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að stuðla að eflingu innlendrar menningar og kynningar á sögu landsins og náttúru með tímabundnum stuðningi við kvikmyndir og sjónvarpsefni sem framleitt er hér á landi.“

Það er markmið laganna. Frumvarpið er til þess að halda áfram að stuðla að því markmiði og halda áfram þeim sömu aðferðum og gefa í í þeim efnum. Mér þykir það alveg við hæfi núna. Ég get hins vegar svarað hv. þingmanni þannig að ef ríkissjóður væri skuldsettur núna þá væri ég meira efins, en það felst líka í þessu fjárfesting, fjárfesting sem maður sér ekki beinlínis útreiknað í tölum nákvæmlega hvernig skili sér, en þetta er ekki einföld peningasóun af hálfu ríkisins að mínu mati.