145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[11:45]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að tala í 1. umr. um þetta mál, sem ég styð heils hugar. Ég réð hins vegar ekki við mig því að þetta er áhugavert efni. Sjálf var ég ráðherra þessa málaflokks og kom í gegnum þingið með 20% hækkunina þannig að ég þekki málið ágætlega. Þetta liggur þannig að við erum í blússandi samkeppni við allan heiminn á mjög mörgum sviðum. Við erum til dæmis á sviði hinna skapandi greina, sem kvikmyndageirinn heyrir undir, í blússandi samkeppni við allan heiminn, þá er markaðurinn allur heimurinn. Við þurfum að taka ákvörðun um það hvar við ætlum að staðsetja okkur í þeirri samkeppni um þau stóru verkefni sem kvikmyndagerðarverkefnin eru. Ég hef verið þeim megin að við ættum að taka þátt í þeirri samkeppni af fullu afli og reyna að fá þessi verkefni hingað inn vegna þess að þau henta atvinnu- og efnahagslífi okkar mjög vel. Fyrir utan að koma hér inn með verkefni á mjög breiðum grunni, þ.e. á mörgum sviðum, þá er þetta er ekki einungis hin hreina kvikmyndagerð og það sem henni fylgir heldur líka allt umstangið í kring um hana, hliðaráhrifin eru gríðarleg. Það er alls kyns akstur og veitingaþjónustan og gistingin og allt sem því fylgir sem hefur líka mjög mikil áhrif, þannig að öldugangurinn frá verkefnunum sem slíkum er mikill þegar þau eru hér. Það þekkjum við vel. Auk þess eru ekki mæld áhrifin af auglýsingunni sem það að íslenskt landslag birtist í stórum erlendum kvikmyndum felur í sér og sömuleiðis þegar við sjáum erlendar stórstjörnur fjalla um veru sína hér á landi á samskiptamiðlum. Þetta er ómetanleg auglýsing fyrir Ísland sem áfangastað til dæmis í ferðaþjónustu. Það verður seint hægt að mæla að fullu áhrifin af svona verkefnum hér.

Þegar kemur að hinum skapandi greinum hafa verið gerðar þó nokkrar skýrslur um þær og þar er kvikmyndagerðin á meðal. Það hefur sýnt sig að þeir fjármunir sem settir eru í þær beint skila sér margfalt til baka. Ágúst Einarsson, doktor í hagfræði, hefur gert á því úttektir og sýnt fram á að hagræn áhrif skapandi greina eru gríðarleg í samfélagi okkar. Það er einfaldlega þannig að stundum þarf að setja krónu út til að fá fleiri til baka. Það er svo í þessu tilfelli. Ef við legðum ekki út fjármuni væri það af þeirri ástæðu að þeir komu ekki inn, vegna þess að þeir auk frekari fjármuna, hærri upphæða sem við leggjum út, komu ekki í ríkiskassann. Um það snýst þetta. Við fáum mjög mikla fjármuni í ríkiskassann frá þessum verkefnum og líka af ölduganginum, eins og ég kalla það, í kringum þau og hluti af því fer svo aftur út. Mér finnst því ekki hægt að segja að menn þurfi að forgangsraða í þágu annarra verkefna því að ekki er hægt að bera saman almennan ríkisrekstur við þennan útgjaldalið, ef svo má að orði komast. Þetta er í rauninni hringrás. Fjármunir koma inn og hluti af þeim fer svo út aftur. Það má horfa á það sem markaðsfé, í gegnum verkefnin er ýmist verið að auglýsa okkur sem land til kvikmyndagerðar eða sem áhugaverðan áfangastað í ferðaþjónustu.

Á þeim tímum sem við lifum, þar sem samfélagsmiðlar gegna jafn miklu hlutverki og raun ber vitni, verður aldrei metið til fjár að fá umfjöllun um Ísland af hálfu þeirra sem hér hafa unnið að kvikmyndum í stórum spjallþáttum erlendis til dæmis. Það eru hliðaráhrifin. Það er þess vegna sem það er góð fjárfesting fyrir okkur að fara þessa leið og þess vegna styð ég hana.

Ég vil nefna í lokin að gerðar hafa verið ákveðnar mælingar á því hvaða áhrif þetta hefur. Ég held að mikilvægt sé að við höldum áfram að fylgjast með því, þ.e. að setja okkur einhverja mælikvarða, hvaða markmiðum við ætlum að ná og vakta svo vel hvort þau náist. Það er ekkert auðvelt því að þetta er svo umfangsmikið og hefur mikil áhrif í kringum sig. Engu að síður er hægt að gera það þröngt fyrir verkefnin sem slík og við höfum svo sem gert það áður, mig minnir að það hafi verið 2010 eða 2011 sem við tókum saman nokkur verkefni og mældum hvaða áhrif þau höfðu á ríkissjóð og það voru mjög jákvæð áhrif. Síðan þarf líka að skoða umfangið í kringum þau, þ.e. hvers virði öldugangurinn er, ef það skilst hvað ég meina með því.

Virðulegi forseti. Ég styð þetta mál og vona að það nái fram að ganga á þessu þingi. Það var áhugaverð umræða sem átti sér stað áðan og ég tel að það væri alveg ferðarinnar virði að fara í gegnum það hvort þetta módel ætti jafnvel við á fleiri sviðum hinna skapandi greina.