145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[12:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði áhuga á að vita hvernig hv. þingmaður hyggst útfæra sérstakan stuðning við þessa menningarstarfsemi og sambærilega menningarstarfsemi ef hvorki í gegnum skattaívilnun né í gegnum endurgreiðslur af einhverju tagi eða fjárstuðning á borð við listamannalaun eða hvað svo sem menn eru með hverju sinni og Kvikmyndasjóð og fleira í þeim dúr, vegna þess að ég átta mig ekki alveg á því hvaða lausnir hv. þingmaður er með á því vandamáli aðrar en almennar skattalækkanir.

Nú man ég sjálfur ekki til þess að hafa séð vinsælar myndir frá þeim skattaparadísum sem oft eru í umræðunni, svo sem Tortóla, eða Seychelles-eyjum, ég hef ekki orðið var við að tungumál eða saga eða menning þessara þjóða sé meira áberandi vegna þess að þetta eru skattaparadísir. Ég sé einfaldlega ekki hvernig það að lækka skatta almennt yfir höfuð, sem er markmið sem er góðra gjalda vert út af fyrir sig, þ.e. að því leyti sem það skaðar ekki innviði landsins og þá í takt við efnahagslegar aðstæður hverju sinni, getur gert það að verkum að menningarleg eigindi eins og tungumál eða saga njóti sín betur á alþjóðavettvangi. Ég hef einfaldlega ekki séð það gerast og velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi einhver dæmi sem ég veit ekki um.

Nú veit ég ekki hversu langt við förum út fyrir skilning hvors annars á hagfræðinni allri saman en ég fæ ekki betur séð en sérstakur stuðningur við menningariðnað hljóti að þurfa að vera svolítið sérstakur. Hann getur ekki bæði verið sérstakur og almennur á sama tíma. Ef efla á þessa menningarstarfsemi, hvernig eigum við að gera það ef ekki með sérstökum skattaívilnunum fyrir tiltekinn iðnað eða fjárútlátum til handa þeim iðnaði, svo sem með endurgreiðslu eða beinum styrkjum?