145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[14:01]
Horfa

Frsm. velfn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (frh.):

Hæstv. forseti. Þakka þér fyrir að bregðast við með því að fresta fundi í örfáar mínútur meðan á þessum tækniörðugleikum stóð. Ég mun halda áfram að greina frá niðurstöðum hv. velferðarnefndar um það bil frá þeim stað þar sem við þurftum að stoppa áðan með framsöguna vegna þeirra tæknilegu örðugleika sem voru hér.

Virðulegur forseti. Búseti á Norðurlandi hsf. gerði nokkrar athugasemdir við frumvarpið eftir 2. umr. Félagið gagnrýndi markaðsvæðingu viðskipta með búseturétt, en samkvæmt 1. málslið 2. efnismálsgreinar 20. gr. frumvarpsins fer um sölu búseturéttar samkvæmt samþykktum húsnæðissamvinnufélags, þar á meðal hvernig búseturétturinn skuli auglýstur meðal félagsmanna þess, hver tilboðsfrestur skuli vera, hvernig kaupverð búseturéttar skuli ákvarðað við þá ráðstöfun, greiðsluform þess og ákvörðun búseturéttargjalds. Húsnæðissamvinnufélög geta samkvæmt 2. málslið 2. efnismálsgreinar 10. gr. frumvarpsins sett lágmarks- og hámarksviðmið um hvert búsetugjald skuli vera. Frumvarpið veitir því félögum svigrúm til að ákvarða sjálf hvernig fari um sölu búseturéttar innan ramma laganna eins og lagt er til að þeim verði breytt með frumvarpinu.

Búseti á Norðurlandi hsf. gerði jafnframt athugasemdir við að ekki væri sett inn heimildarákvæði um rekstur leiguíbúða innan húsnæðissamvinnufélags. Húsnæðissamvinnufélagsformið er sniðið að búsetuíbúðum. Önnur félagsform henta betur starfsemi leigufélaga. Húsnæðissamvinnufélögum verður áfram heimilt að stofna og eiga aðild að félögum með takmarkaðri ábyrgð standi slík félög að verkefnum sem teljast mikilvæg fyrir starfsemi húsnæðissamvinnufélaga, samanber núgildandi 2. mgr. 1. gr. laga um húsnæðissamvinnufélög. Húsnæðissamvinnufélög geta því stofnað og átt aðild að leigufélögum teljist það mikilvægt fyrir starfsemi þeirra.

Búseti á Norðurlandi hsf. gerði einnig athugasemdir við að ekki væru skilgreindar skilvirkar heimildir fyrir formbundið samstarf sveitarfélaga svo og velvildarfjárfesta varðandi fjármögnun og stjórnarþátttöku í húsnæðissamvinnufélagi.

Í b-lið 5. gr. frumvarpsins eftir 2. umr. er sérstaklega vísað til framlaga frá samstarfsaðilum og í 2. efnismálsgrein 6. gr. segir að heimilt sé að ákveða í samþykktum húsnæðissamvinnufélags að aðrir en félagsmenn séu kjörgengir í stjórn þess. Húsnæðissamvinnufélögum ætti því að vera kleift að eiga í samstarfi um fjármögnun og stjórnunarþátttöku við sveitarfélög og velvildarfjárfesta.

Búseti á Norðurlandi hsf. lagði til að húsnæðissamvinnufélög tilgreindu í samþykktum sínum hvort þau skyldu rekin án hagnaðarkröfu. Í 3. efnismálsgrein 7. gr. frumvarpsins eftir 2. umr. er tekið fyrir arðgreiðslur úr húsnæðissamvinnufélögum og í 4. mgr. c-liðar 25. gr. er tekið fyrir að fé húsnæðissamvinnufélaga renni til þeirra sem að félaginu standa við slit þeirra umfram greitt búseturéttargjald. Nefndarmenn töldu æskilegt að húsnæðissamvinnufélög væru án hagnaðarkröfu með það að leiðarljósi að auka búsetuöryggi almennings. Nefndarmenn leggja því ekki til að heimilt verði að víkja frá þessum ákvæðum í samþykktum.

Búseti á Norðurlandi hsf. lagði til að húsnæðissamvinnufélög hefðu kauprétt að búseturétti á föstu verði, en ekki aðeins forkaupsrétt. Í kauprétti felst að húsnæðissamvinnufélag geti keypt búseturétt óháð því hvort búseturéttarhafi vilji selja hann. Nefndarmenn töldu það ekki æskilegt, enda skerti það búsetuöryggi búseturéttarhafa, og leggja því ekki til breytingu þess efnis.

Hvað verð vegna forkaupsréttar húsnæðissamvinnufélags varðar árétta nefndarmenn hv. velferðarnefndar að húsnæðissamvinnufélög geta samkvæmt 2. málslið 2. efnismálsgreinar 10. gr. frumvarpsins sett lágmarks- og hámarksviðmið um hvert búseturéttargjald skuli vera.

Loks gagnrýndi Búseti á Norðurlandi hsf. fyrirvaralausa breytingu gagnvart eldri samningum félagsins. En samkvæmt 27. gr. frumvarpsins mun það aðeins gilda um búsetusamninga sem gerðir eru eftir að frumvarpið tekur gildi sem lög nema um annað sé samið milli búseturéttarhafa og húsnæðissamvinnufélaga.

Nefndarmenn í hv. velferðarnefnd Alþingis leggja því til að nefndarálit um frumvarp um húsnæðissamvinnufélög eins og það lá fyrir eftir 2. umr. í þinginu verði samþykkt óbreytt fyrir utan breytingartillögu sem hv. formaður velferðarnefndar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, mun gera grein fyrir í framsögu á eftir og leggjum við til að frumvarpið verði samþykkt með þeim litlu breytingum.

Að lokum vil ég þakka öllum hv. þingmönnum sem sæti hafa átt í hv. velferðarnefnd fyrir alla þá vinnu sem lögð hefur verið í þetta mál og fyrir mikla samvinnu um málið. Ég óska eftir mikilli samvinnu um þau húsnæðisfrumvörp sem fram undan er að afgreiða frá hv. velferðarnefnd.