145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[14:18]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að fara ágætlega yfir vinnu hv. velferðarnefndar sem er með þetta umfangsmikla mál. Hv. þingmaður kom inn á að meginmarkmiðið er að styrkja rekstrargrundvöll slíkra félaga með það að markmiði að auka og styrkja húsnæðismarkaðinn og fjölbreytni á þeim markaði.

Hv. þingmaður kom inn á þau sjónarmið sem togast á, annars vegar rekstrargrundvöllur þessara félaga og svo hins vegar það sem snýr að búseturéttinum. Hér er sýnd viðleitni og félögunum gefið tækifæri til að hafa sveigjanleika í samþykktum sínum og aðgerðum og vissulega er mismunandi eftir svæðum hver staða þessara rekstrarfélaga er.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í sjónarmiðið um búseturéttinn. Það segir í 10. gr. á bls. 5 að húsnæðissamvinnufélagi sé heimilt að setja í samþykktum sínum lágmarks- og hámarksviðmið um hvert búseturéttargjald skuli vera en gjaldið megi þó aldrei nema hærri fjárhæð en sem jafngildir þriðjungi af markaðsvirði viðkomandi búsetuíbúðar við kaup á búseturétti. Það er þak á búseturétti.

Nú er hagsveiflan upp og verðmæti eignar hækkar. Ég velti fyrir mér af hverju 30% voru valin, af hverju þriðjungur? Af hverju ekki hærra eða lægra? Af hverju ekki meira svigrúm eða jafnvel minna? Hver eru rökin á bak við þriðjung?