145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

tollalög og virðisaukaskattur.

609. mál
[14:47]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í andsvari hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar fólst varla önnur spurning en sú hvar samræmingin væri á vegi stödd. Ég treysti mér ekki til að svara því, en alla vega ber að játa að stóri gjalddagi í viðskiptum fyrirtækja er greiðslukortauppgjör í upphafi hvers mánaðar. Sú ráðstöfun sem hér er gerð miðar að því að hluti af þessu komi eftir að sú greiðsla á sér stað. Ég ætla bara að svara því hér og nú að ég geri mér ekki almennilega grein fyrir því hvar þessi samræming er stödd. En það er tvennt í þessu dæmi; ríkið hefur náttúrlega skyldur vegna tekna til að veita þjónustu, gott og vel, en gæta verður að því að atriði eins og greiðsluaðlögun valdi ekki verulegum sveiflum fyrir fyrirtæki í landinu sem kunna að lenda í tiltölulega dýrum yfirdráttarskuldum í bönkum sem síðan velta yfir á neytendur að lokum. Það er tilgangurinn með þessari samræmingu í heild sinni. Ég ætla ekki að svara fyrir það hvar hún er stödd, en það kann að vera að margar af þeim um það bil 200 breytingum sem voru gerðar á tekjuöflun á síðasta kjörtímabili, að kannski hafi verið glóra í einhverjum þeirra. Þetta er kannski hluti af því. Virðulegi forseti, ekki slá í bjölluna, ég hef lokið máli mínu.