145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

kjördagur og málaskrá ríkisstjórnarinnar.

[15:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni. Það er mjög sérkennilegt að vera boðaður á fund á þriðjudegi þar sem gefið er til kynna að það þurfi að fara að fastsetja kjördag og fá á hreint hvaða málum þurfi að ljúka. Síðan líður og bíður, það er kominn mánudagur og það er enn engin niðurstaða komin af þessum fundi.

Ég veit ekki hvaða ályktanir við formenn stjórnarandstöðuflokkanna eigum að draga af þessu, hvort ríkisstjórnarflokkarnir hafi ekki fundið sér tíma í annríki daganna til að koma sér saman um þessi mál eða hvort þeir hreinlega nái ekki saman um þessi mál. Það þarf engan geimvísindamann til að sjá að mjög ólíkir tónar heyrast frá forustumönnum stjórnarflokkanna um hvaða málum eigi að ljúka. Mér fyndist heiðarlegt gagnvart Alþingi, gagnvart virðingu þessarar stofnunar, að forustumenn stjórnarflokkanna ættu fund með forseta þingsins og auðvitað formönnum annarra flokka því að þessi mál þurfa að komast á hreint. Við þurfum (Forseti hringir.) að sýna að við ráðum við jafn áþreifanlegt viðfangsefni og það að ákveða kjördag (Forseti hringir.) og setja okkur starfsáætlun fram í tímann.