145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

kjördagur og málaskrá ríkisstjórnarinnar.

[15:14]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég hef meira þol gagnvart hæstv. fjármálaráðherra en margir aðrir, en þetta var verulega hortugt svar hjá hæstv. fjármálaráðherra. Hæstv. fjármálaráðherra segir að fólkið í landinu hafi engan áhuga á svona þvælu. Og hver er þvælan? Þvælan er fyrirspurn frá hv. þm. Kristjáni L. Möller sem hefur beðið í tíu vikur. Um hvað er spurt, hæstv. forseti? Það er spurt hvort til hafi verið verðmat á Borgun þegar Landsbankinn seldi félagið frá sér með hætti sem hæstv. fjármálaráðherra hefur átalið og Fjármálaeftirlitið líka. Þessi fyrirspurn hefur legið fyrir í tíu vikur.

Ég hef fullan skilning á því að hæstv. ráðherra sé önnum kafinn, en hann er hér í dag. Hvers vegna er ekki tíu vikna gamalli fyrirspurn svarað?

Ég hef fullan skilning á því að ráðherrar hafi mikið að gera, en það gengur ekki að hæstv. fjármálaráðherra komi hingað (Forseti hringir.) og tali um það sem einhverja endemis þvælu að þingmaður notfæri sér (Gripið fram í.) sinn rétt til að spyrja (Gripið fram í.) eftir því hvort Borgun (Forseti hringir.) hafi verið seld á grundvelli verðmats eða ekki, hvort það verðmat sé til og hvort menn fái að sjá það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna